10. fundur 02. september 2024 kl. 16:00 - 17:58 í fundarsal að Hnjúkabyggð 33
Nefndarmenn
  • Grímur Rúnar Lárusson aðalmaður
  • Agnar Logi Eiríksson aðalmaður
  • Arnrún Bára Finnsdóttir aðalmaður
  • Kamila Czyzynska aðalmaður
  • Ólafur Sigfús Benediktsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Kristín Ingibjörg Lárusdóttir menningar-íþrótta og tómstundafulltrúi
Fundargerð ritaði: Grímur Rúnar Lárusson formaður
Dagskrá
Grímur Rúnar Lárusson, formaður nefndarinnar, bauð fundarmenn velkomna til tíunda fundar í Íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsunefnd Húnabyggðar.
Í upphafi fundar óskaði formaður eftir því að bæta við einu máli á dagskrá, erindi frá dansskóla menningarfélags Húnaþings vestra, og verður það mál nr. 8. Önnur mál eru færð til loka fundar og verður mál nr. 9. Samþykkt samhljóða.

1.Verkefnastaða

2406009

Staða framkvæmda. Börkur Þór Ottósson, bygginga- og skipulagsfulltrúi Húnabyggðar, mætir á fundinn undir þessum lið og fer yfir stöðu framkvæmda í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi og í Skjólinu
Börkur Þór Ottósson, bygginga- og skipulagsfulltrúi Húnabyggðar, mætti á fundinn á Teams undir þessum lið og fór yfir yfirstandandi framkvæmdir við félagsmiðstöðina Skjólið og Íþróttamiðstöðina á Blönduósi. Verið er að leggja nýtt gólf á íþróttamiðstöðina, setja upp nýja sánu í sundlauginni og gagngerar endurbætur hafa orðið á félagsmiðstöðinni Skjólinu á efri hæð félagsheimilisins að Húnabraut 6. Fyrirhugað er að umræddum framkvæmdum ljúki fyrir mánaðarlok. Þrátt fyrir að endurbætur í félagsmiðstöðinni Skjólinu séu umfangsmiklar er ljóst að þakið lekur og ekki hefur verið skipt um glugga að hluta. Nefndin leggur mikla áherslu á að framangreind atriði verði lagfærð sem fyrst svo þau skemmi ekki þær endurbætur sem þegar hafa átt sér stað.

Þá vill nefndin vekja athygli á því að flísarnar í sundlauginni eru byrjaðar að losna að hluta. Mjög nauðsynlegt er að hefja lagfæringar á því sem fyrst svo ekki þurfi að koma til lokunar á sundlauginni í vetur.

Nefndin fagnar þó framangreindum framkvæmdum og bindur vonir við að þær eigi eftir að gera aðstöðu barna og annarra íbúa sveitarfélagsins til íþrótta- og tómstundaiðkunar enn betri.

2.Heilsudagar í Húnabyggð

2310001

Heilsudagar í Húnabyggð - Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar, mætir á fundinn undir þessum lið og kynnir drög að dagskrá Heilsudaga í Húnabyggð
Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar kynnti Heilsudaga í Húnabyggð sem haldnir verða frá 23. september nk. til og með 30. september nk. Dagskráin er styrkt af ÍSÍ og verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Nefndin fagnar þessu framtaki og hvetur alla íbúa sveitarfélagsins til þess að kynna sér dagskránna þegar hún liggur fyrir og taka þátt í þeim fjölmörgu viðburðum sem boðið verður upp á.

3.Skjólið - starfið

2402034

Félagsmiðstöðin Skjólið. Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar, mætir á fundinn undir þessum lið og kynnir starfið í vetur.
Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar fór yfir starfið og dagskrá vetrarins í félagsmiðstöðinni Skjólinu. Á meðan framkvæmdir í fyrirhuguðu húsnæði Skjólsins standa yfir verður dagopnun Skjólsins á bókasafninu í Húnaskóla. Fullmannað er í allar stöður í félagsmiðstöðinni í vetur. Opnun í Skjólinu verður með samskonar sniði og undanfarin ár að undanskildum fyrsta mánuðinum á meðan húsnæðið er ekki klárt.

4.Félagsstarf aldraðra

2207002

Félagsstarf aldraðra. Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar, mætir á fundinn undir þessum lið og kynnir starfið í vetur.
Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar fór yfir starfið og dagskrá vetrarins í félagsstarfi aldraðra. Kristín upplýsti nefndarmenn um ráðningu nýrrar forstöðukonu félagsstarfs aldraðra í Húnabyggð, Vigdísi Eddu Guðbrandsdóttur. Opnunartími og dagskrá félagsstarfs aldraðra verður með svipuðu sniði og undanfarin ár en þó með nýjum áherslum með tilkomu nýs starfsfólks. Félagsstarfið mun hefjast í næstu viku. Nefndin vill koma á framfæri sérstökum þökkum til fráfarandi starfsfólks, Sigríði Hrönn Bjarkadóttur, Valdísi Finnbogadóttur og Sigþrúði Friðriksdóttur fyrir mikið og óeigingjarnt starf undanfarin ár og áratugi.

Þá sköpuðust umræður á fundinum um aðgengi að húsnæði félagsstarfsins og bílastæðaskort. Nefndin leggur til að leitað verði leiða til að fjölga bílastæðum og bæta aðgengi við húsnæðið

5.Tómstundastarf eldri borgara

2408021

Tómstundastarf eldri borgara. Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar, mætir á fundinn undir þessum lið og kynnir starfið í vetur.
Kristín Ingibjörg Lárusdóttir, menningar-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Húnabyggðar fór yfir tómstundastarf eldri borgara í vetur. Búið er að mynda stýrihóp sem skipuleggur dagskrá tómstundastarfsins. Búist er við því að dagskráin liggi fyrir í byrjun október.

6.Ungmennaráð Húnabyggðar

2310003

Ungmennaráð Húnabyggðar
Samkvæmt 5. gr. samþykkta fyrir Ungmennaráð Húnabyggðar skal skipa fimm fulltrúa og fimm til vara í Ungmennaráð Húnabyggðar. Skulu tilnefningar í ráðið gilda frá 1. október til eins árs í senn. Nefndin felur íþrótta-, menningar og tómstundafulltrúa að kalla eftir tilnefningum í ráðið frá viðkomandi aðilum samkvæmt framangreindri samþykkt.

7.Áherslur íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsunefndar Húnabyggðar fyrir fjárhagsáætlunargerð 2024

2310004

Áherslur íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsunefndar fyrir fjárhagsáætlunargerð 2025.
Umræður sköpuðust um þennan lið á fundinum.

Áherslur íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsunefndar Húnabyggðar fyrir fjárhagsáætlunargerð eru eftirfarandi:
-
Áhersla verði lögð á gerð og uppbyggingu göngustíga innan sveitarfélagsins, fjölgun bekkja og kortlagningu á gönguleiðum.
-
Styrkir vegna uppbyggingar og endurbóta á íþróttamannvirkjum verði hækkaðir að nýju.
-
Sveitarfélagið stuðli að auknu framboði íþrótta í sveitarfélaginu, fyrir allan aldurshóp, t.d. í auknu samstarfi við nærliggjandi sveitarfélög.
-
Sveitarfélagið móti skýra framtíðarsýn um uppbyggingu á íþróttavellinum á Blönduósi og íþróttahúsinu á Blönduósi.
Nefndin felur formanni að koma framangreindum áherslum nefndarinnar til formanns byggðaráðs Húnabyggðar svo hægt verði að taka mið af þeim fyrir fjárhagsáætlunargerð 2025.

8.Erindi frá Dansskóla Menningarfélags Húnaþings vestra

2409011

Formaður lagði fyrir fundinn bréf frá Dansskóla Menningarfélags Húnaþings vestra. Í bréfinu er það rakið að dansskólinn hefði verið með námskeið á Blönduósi á vorönn 2024 og að áhugi væri fyrir því að endurtaka leikinn á vorönn 2025. Ástæða þessa bréfs nú væri áhugi foreldra á Blönduósi að vera með námskeiðið líka á haustönn 2024 en til þess vantaði fjármagn. Umræður sköpuðust um þennan lið. Nefndin telur mikilvægt að sveitarfélagið stuðli að auknu framboði íþrótta í sveitarfélaginu.

9.Önnur mál

2206034

Önnur mál
Nefndin endaði fundinn á vettvangsferð í félagsmiðstöðina Skjólið og Íþróttamiðstöðina á Blönduósi.

Fundi slitið - kl. 17:58.

Getum við bætt efni þessarar síðu?