Ferðafimmur og fjallaþristur er leikur fyrir ferðalanga sem heimsækja Húnabyggð. Boðið er upp á nokkrar mismunandi útfærslur af leiknum til að höfða til ólíkra hópa. Í ferðafimmunum eru fimm staðir heimsóttir, tekin mynd og henni hlaðið upp á Instagram eða Facebook. Í fjallaþrist eru myndirnar þrjár.

Til að taka þátt: Póstaðu þínum myndum á instagram story og merktu @hunabyggd og #ferda5 eða #fjalla3

Vatnsdalur 

Aðalvettvangur ferðafimmu er á slóðum Vatnsdælu þar sem Vatnsdalur er aðal sögusviðið. Hann er grösugur og búsældarlegur dalur sem gengur inn til suðurs á milli Vatnsdalsfjalls í austri og Víðidalsfjalls í vestri. Við mynni dalsins að vestan eru Vatnsdalshólarnir sem sagðir eru óteljandi. Þeir eru flestir keilumyndaðir og taldir hafa orðið til við jarðskrið úr Vatnsdalsfjalli við lok ísaldar fyrir um tíu þúsund árum. Vestast í hólunum eru Þrístapar þar sem fram fór síðasta aftaka á Íslandi árið 1830, þegar Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru hálshöggvin fyrir morðið á Natani Ketilssyni Innan við hólana er stöðuvatnið Flóðið, sem varð til árið 1720, þegar skriða (Bjarnastaðaskriða) úr Vatnsdalsfjalli stíflaði Vatnsdalsá, sem rennur um dalinn, og eyddi bænum Bjarnastöðum.

Ferðafimma í Vatnsdal

Ferðafimman er vörðuð leið fyrir fólk sem hefur áhuga á því að fræðast á ferð sinni um landið. Ferðinni er heitið hringinn í Vatnsdal á slóð Vatnsdælu, Grettis, Agnesar og Friðriks, auk þess sem fæðingarstaður Bríetar Bjarnhéðinsdóttur kemur við sögu. Kjörið er að hlusta á hljóðleiðleiðsögn um Vatnsdælu á ferðinni en hana má nálgast hér: https://www.hunabyggd.is/is/baerinn/umhverfi/vatnsdalur-hljodleidsogn Hringurinn í Vatnsdal er um 40 km á ágætum malarvegi. Á þessari leið eru meðal annars margir fallegir fossar og lækir.

  1. Fyrsti áfangastaðurinn er við Þrístapa í Vatnsdalshólunum, skammt vestan við vestari vegamótin inn í Vatnsda.Hér fór fram síðasta aftaka á Íslandi þegar Agnes og Friðrik voru hálshöggvin árið 1830. Hér hefur verið sett upp áhugaverð sögusýning sem vert er að skoða.
    Eftir heimsókn á Þrístapa er haldið sem leið liggur að áðurnefndum vegamótum þar sem beygt er út af hringvegi og ekinn hringur í dalnum sem er um 40 km leið á ágætum malarvegi
  2. Næsta myndefni er gamla húsið á Kornsá í Vatnsdal þar sem Björn Blöndal sýslumaður bjó þegar hann dæmdi Agnesi og Friðrik til dauða. Stöðvið bílinn við afleggjara heim að bænum og virðið fyrir ykkur húsið sem hefur nýlega verið gert upp og er því sem næst í upprunalegri mynd. Ekki fara heim að bænum því hann er í einkaeigu en veitið litlum fossi í gili sunnan við bæinn athygli er ekið er áfram Vatnsdalsveg. Skömmu áður en komið er að Kornsá er náttúruvættið Kattarauga sem vert er að skoða.
  3. Ljótunnarkinn er grasbrekka í nyrðri ásnum í Ási. Þar mótar enn fyrir fornum garðlögum og tóftum fornbýlis. Þjóðminjavörður friðlýsti minjar í Ljótunnarkinn árið 1930. Við veginn norðan við bæinn Ás er að finna söguskilti og þaðan er gönguleið að minjunum. Takið mynd og merkið #Vatnsdaela. Við bæinn Haukagil sem er síðasti bærinn á vestursíðu dalsins, hefur verið reistur minnisvarði um kvenfrelsiskonuna Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sem fæddist þar 1857.
  4. Minnisvarði um Ingimund gamla fyrsta landnámsmann í Húnavatnssýslu, er skammt fyrir ofan bæinn að Hofi. Þaðan er göngustígur áleiðis upp í fjallið sem auðvelt er að ganga fyrir þá sem vilja fá útsýni yfir dalinn.
    Á leiðinni út dalinn er vert að horfa vel bæði upp í fjall og út á flóann. Sérstakan gaum ber að gefa Hvammssurðunum sem eru í fjallinu eftir að ekið er fram hjá bænum Hvammi. Norðan við skriðurnarblasir Hvammsfossinn við vatnslítill foss en hár.
  5. Giljárgil Fallegt gil ofan við bæinn Stóru-Giljá sem er við Hringveginn á leið að Blönduósi. Hægt er að leggja bíl við ána og ganga upp með henni að fallegum fossum.

Fjölskyldufimma í Vatnsdal

Fjölskyldufimman í er hugsuð fyrir fjölskyldur með lítil börn en hentar öllum sem hafa gaman af því að ferðast um og sjá fallega staði. Leiðin liggur um hinn fagra Vatnsdal þar sem fjölmargir áhugaverðir staðir eru til að skoða en þeir sem eru valdir hér krefjast ekki erfiðrar göngu heldur aðeins rölti stutt frá bílnum. 

  1. Skúlahóll er einn af Vatnsdalshólunum óteljandi og upp á hann liggja tröppur til verja viðkvæman gróður á hólnum. Fyrsta stoppið í þessum leik er við tröppurnar en þær blasa við þegar ekið er fram Vatnsdal að vestanverðu. Tilvalið er að byrja á að heimsækja Dóru í Listakotinu, skoða sýninguna Óskasteinn í Tindastól, komast á salerni og fá sér vöfflu. Ofan af hólnum í fallegt útsýni fram Vatnsdal og alla leið út að Spákonufelli. Hægt er að ganga í kringum hólinn og busla í vatninu sem heitir Flóðið og tilvalið að telja tröppurnar.
  2. Þórdísarlundur er yndislegur trjálundur stutt frá Skúlahól og á Húnvetningafélagið í Reykjavík heiðurinn af honum. Þarna er talið að fyrsti Húnvetningurinn hafi fæðst en það var Þórdís dóttir Ingimundar gamla sem nam land að Hofi. Í þessum lundi er kjörið að taka gott stopp, leika sér, og borða nesti.
  3. Kattarauga er náttúrundur á milli bæjanna Gilsstaða og Kornsár. Það var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975. Þetta er tjörn með tveimur fljótandi hólmum sem rekur undan vindi. Í botni tjarnarinnar er lindarauga sem glittir á í logni og sólskini. Af lindarauganu dregur tjörnin nafn sitt.
  4. Ingimundur gamlivar fyrstur til að nema land í Húnavatnssýslu. Bærinn hans heitir Hof og stendur austanvert í dalnum. Á leiðinni frá Kattarauga að Hofi er ekið fram hjá nokkrum áhugaverðum stöðum sem vert er að gefa gaum. T
    Eftir að komið er fram hjá Hvammi taka Hvammsurðirnar við á hægri hönd en þær eru á náttúruminjaskrá. Verið dugleg að horfa út um gluggann á skriðurnar og fjallið því fljótlega er komið að Hvammsfossi, vatnslitlum fossi í tilkomumiklu gili.
  5. Gullsteinn er rétt norðan við vegamót Hringvegar og Reykjabrautar (724), sem liggur í átt að Húnavöllum. Þar er minnisvarði um fyrstu kristniboðana Friðrek biskup og Þorvald víðförla en faðir Þorvaldar var bóndi á Stóru Gilja og trúði á heiðna vætti í Gullsteininum. Það getur verið gaman að klifra upp á steininn.

Fjallaþristur

Þrjár fjallgöngur tilheyra fjallaþristinum og mælt með að taka tvo daga í þær. Gangan á Jörundarfellið er þeirra mest krefjandi og mælt með því að búa sig vel og hafa með sér nesti. Hnitsettar leiðir eru gefnar upp hér að neðan en sjálfsagt að skoða aðrar leiðarlýsingir, svo sem á wappinu.

  1. Reykjanibba í Svínadalsfjalli 769 m.y.s.
    https://is.wikiloc.com/fjallaferd-slodir/reykjanibba-vid-hunavelli-78370453
  2. Öxlin á Vatnsdalsfjalli 677 m.y.s.
    https://is.wikiloc.com/fjallaferd-slodir/oxl-i-vatnsdal-82067809
  3. Jörundarfell er í Vatnsdalsfjalli 1038 m.y.s.og er hæst fjalla í Austur Húnavatnssýslu
    Gott að byrja gönguna nálægt bænum Hjallalandi, hér að neðan eru gefna 3 hnitsettar leiðir og mikilvægt að spá vel í þær og lesa landslagið því sneiða þarf hjá þverhnípi og mýrlendi.
    https://is.wikiloc.com/fjallaferd-slodir/jorundarfell-ad-nordanverdu-78370055
    https://is.wikiloc.com/fjallaferd-slodir/jorundarfell-ad-sunnanverdu-78370233
    https://is.wikiloc.com/fjallaferd-slodir/jorundarfell-um-hvammsskard-14638479

Fjölskyldufimma í gamla bænum

Gamli bærinn á Blönduósi er algjörlega falin fyrir almennum ferðalöngum en hann hefur verið tilnefndur sem verndarsvæði í byggð þar sem mikið er af gömlu húsum í upprunalegu útliti. Þarna gefur að líta þversnið af íslensku arkitektúr á 100 ára tímabili (1880-1980). 

Við mælum með göngutúr frá bílastæðinu við ÓB bensín við hringtorgið þegar komið er inn í bæinn að sunnan. Einnig er hægt að leggja bílnu á bílastæði við stjórnsýsluhúsið sem er hvíta stóra húsið við hringtorgið.

  1. Á gönguleið í gamla bæinn meðfram ánni þá kemur maður að fuglahúsi, þar sem fuglahúsið stendur stóð áður bærinn Einarsnes. Á þessari göngu sér maður oft gæasamömmur með ungana sína. Reynið að taka mynd af gæsaunga eða gæsamömmu. Ef það tekst ekki þá er líka hægt að taka mynd af fuglahúsinu.
  2. Meðfram ánni Blöndu nálægt ósnum sem gefur bænum nafn sitt, eru upplýsingaskilti um algengustu fuglana sem verpa við ánna. Finnið eitt þeirra og takið mynd af því. Hér gæti verið gaman að fara í fjöruferð, skoða steina, fleyta kerlingum eða horfa eftir selum eða hvölum úti á sjó.
  3. Stutt frá sjónum er lítil gömul kirkja með grænu þaki. Reyndu að finna kirkjuna og taktu mynd af henni eða upplýsingaskiltinu fyrir framan hana.
  4. Í gamla bænum er risastór strompur á svörtu húsi. Á strompinum er skrifað með stórum rauðum stöfum orðið Krútt sem er nafnið á brauðgerð sem eitt sinn var í húsinu, nú er þar veislu- og viðburðarými. Gatan á bak við svarta húsið heitir Koppagata en í gamla daga var þarna skurður sem mátti hella úr koppnum sínum í því það var enginn með klósett heima hjá sér. Takið mynd þar sem sést í stafin á strompnum.
  5. Einkennisdýr svæðisins eru ísbjarnarhúnar vegna þess að Ingimundur gamli sem nam hér land er sagður hafa fundið birnu með tvo húna við Húnavatn þegar hann kom hingað frá Noregi. Hann er sagður hafa farið með húnana og gefið Noregskonungi þá. Í næstu þraut áttu að finna styttur af litlum húnum með mömmum sínum. Tvær styttur eru á lóð sjúkrahússins og hægt er að ganga þangað með því að fylgja göngustíg undir brúnni á Blöndu eða aka inn á bílastæði við heilsugæslustöð.

Eftir gönguna er ekki úr vegi að hoppa aðeins á stærsta ærslabelgi landsins eða fara í frisbígolf í Fagrakvammi áður en haldið er í sundlaugina.

Getum við bætt efni þessarar síðu?