Vatnsdæla saga hefur verið talin rituð um 1270, en ekki er vitað um höfund hennar. Þó er ljóst að hann þekkti vel til staðhátta í Vatnsdal og hefur trúlega haft einhver tengsl við Hofsættina. Hugsanlega hefur sagan verið rituð í Þingeyraklaustri. Sagan hefur verið gefin út í ýmsum útgáfum og þýdd á nokkur tungumál.
Vatnsdæla saga er ættarsaga hinna fornu Hofverja í Vatnsdal. Hún nær yfir nokkra mannsaldra frá því fyrir 900 og fram á 11. öld. Þótt áhersla sögunnar sé á ættina og goðorðið sem hún hélt, þá segir líka frá fjölmörgum íbúum dalsins, gestum sem eiga þar leið um og fjölda atburða sem verða á sögutímanum. Í söguna fléttast einnig sagnir af hjátrú og forneskju. Vatnsdæla saga hefst í Noregi og segir þar frá föður Ingimundar gamla, Þorsteini Ketilssyni í Raumsdal og afrekum hans. Kona Þorsteins var Þórdís dóttir Ingimundar jarls af Gautlandi og eignuðust þau son er snemma varð með miklum þroska. Hann var nefndur Ingimundur og fékk síðar viðurnefnið gamli. Ingimundur varð kappi og bardagamaður og fór í hernað, m.a. með Haraldi konungi hárfagra. Að konungs ráði gekk Ingimundur að eiga Vigdísi dóttur Þóris jarls þegjanda. Sagan fylgir síðan Ingimundi gamla til Íslands og segir frá landnámi hans að Hofi í Vatnsdal. Ingimundur gerist höfðingi Vatnsdælinga og fjallar sagan um völd ættarinnar og samskipti Ingimundar og afkomenda hans við íbúa og gestkomandi í dalnum.
Við lát Ingimundar færast völdin til sona hans og síðar barnabarna. Þorsteinn stýrir goðorðinu eftir föður sinn, þá Ingólfur sonur hans, síðar Þorgrímur Kornsárgoði, dóttursonur Ingimundar og loks Þorkell krafla, frillusonur Þorgríms. Sögunni lýkur við andlát Þorkels kröflu á fyrri hluta 11. aldar, en þá var ættarveldið að mestu liðið undir lok.
Börn Ingimundar gamla og Vigdísar konu hans koma víða við sögu. Þorsteinn var elstur þeirra. Hann var snemma vænn og gjörvilegur, stilltur, vel orðvís, langsær, vinafastur og hófsmaður á alla hluti. Hann hafði forystu fyrir þeim bræðrum, fékk bæ og lönd að Hofi við lát Ingimundar og fór með goðorðið eftir hann. Þorsteinn átti tvo sonu er hétu Ingólfur og Guðbrandur og tók Ingólfur við goðorði eftir föður sinn.
Jökull Ingimundarson var allmikilfenglegur með hvassar sjónir, mikill kappi og gerðist afreksmaður að vexti og afli. Hann var kappfullur til átaka og fékk í sinn hlut sverðið Ættartanga. Hann bjó í Tungu.
Þórir hafursþjó var vænn maður og mikill vexti og hafði á sér kaupmanns æði. Hann hlaut Vatnsdælagoðorð við arfskipti og bjó á Nautabúi. Þórir fóstraði Þorkel kröflu.
Högni var farmaður og fékk skipið Stíganda eftir föður sinn. Hann féll í bardaga á Kárnsnesi.
Smiður var frillusonur Ingimundar gamla og bjó á Smiðsstöðum.
Þórdís fæddist við Þórdísarholt við komu Ingimundar og manna hans í Vatnsdalinn. Hún átti Hallorm og bjuggu þau að Kornsá. Þeirra sonur var Þorgrímur er síðar varð Kornsárgoði, frillusonur hans var Þorkell krafla sem síðar varð Vatnsdælagoði.
Jórunn var önnur dóttir Ingimundar og Vigdísar. Hún átti Ásgeir á Ásgeirsá í Víðidal.