Blanda er jökulá og á upptök í mörgum kvíslum undan Hofsjökli. Er syðsta kvíslin fast norðan við Blágnípu. Norðan hennar gengur fram skriðfjökull, Blöndujökull. Blanda er með lengstu ám landsins, 125 km á lengd. Hún var farin á ferjum og hestum áður en hún var brúuð og á ís á vetrum. Vitað er um að sem næst 200 manns hafa farist í henni. Við Blöndu stendur kauptúnið Blönduós þar sem hún fellur til sjávar við austanverðan Húnafjörð. Í henni er laxveiði.
Fram við byggð fellur Blanda í miklum gljúfrum og djúpum, 18 km leið. Heita þau Blöndugil. Margar þverár falla í Blöndu, Svartakvísl, Strangakvísl og Svartá að austan, Seyðisá og Sandá að vestan. Allmörg vöð voru á Blöndu, Blönduvöð inni á hálendi og Hrafnseyrarvað hjá Björnólfsstöðum kunnust. Lögferjur voru fyrrum á Mjósundi sunnan Holtastaða og undan Brúarhlíð (Syðra-Tungukoti). Kláfferja var á Blöndu milli Brandsstaða og Blöndudalshóla fram um 1950.
Tvær brýr eru á Blöndu, önnur hjá Blönduósi en hin í neðanverðum Blöndudal, niður undan Syðri-Löngumýri.
(Landið þitt Ísland, Þorsteinn Jósepsson Steindór Steindórsson, 1980)