Sveitarstjórn Blönduósbæjar hefur ráðið Valdimar O Hermannsson sem sveitarstjóra og ráðningin var staðfest á fundi sveitarstjórnar í gær, 12. júlí. Valdimar hefur undanfarin tvö ár starfað sjálfstætt, meðal annars sem Verkefnastjóri, nú síðast fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.
Valdimar er markaðsfræðingur að mennt en hefur einnig lagt stund á fjölbreytt nám, m.a. í viðskiptafræðum, stjórnun, markmiðasetningu og leiðtogaþjálfun bæði hérlendis sem og í Evrópu, Japan og USA.
Valdimar var kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í 12 ár og sat þar í bæjarráði í 6 ár. Hann hefur gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum á vettvangi sveitarstjórnarstigsins á landsvísu, m.a. sem formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, stjórnarformaður Austurbrúar ses, Náttúrustofa Austurlands, HAUST og SHÍ. Þá situr hann í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, og þekkir því vel til stöðu sveitarfélaga á svæðinu.
Áður starfaði Valdimar meðal annars í 12 ár sem Rekstrarstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og um tíma einnig sem forstöðumaður innkaupasviðs HSA en þar áður aðallega við innkaupa- og rekstrarstjórn fyrirtækja.
Valdimar er í sambúð með Vilborgu Elvu Jónsdóttur, hjúkrunarfræðingi.
Sveitarstjórn Blönduósbæjar fagnar ráðningu Valdimars og hlakkar til að takast á við þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru í samstarfi við hann. Valdimar mun hefja störf sem sveitarstjóri Blönduósbæjar 14. ágúst n.k. samkvæmt samkomulagi þar um.