25. júní 2024
Fréttir
Formenn fjallskiladeilda, formaður og varaformaður landbúnaðarnefndar Húnabyggðar hittust í dag til að fara yfir opnun á afréttum Húnabyggðar.
Gróður er tilbúinn og fært á allar heiðar nema Grímstungu- og Haukagilsheiðar. Verið er að vinna í að gera veginn upp Grímstunguheiði færan þó ekki sé líklegt að stórir fjárbílar komist þar á næstu dögum. Fjallskiladeild Grímstungu- og Haukagilsheiða mun fylgjast með og tilkynna þegar vegurinn er fær.
Búið er að fara yfir sleppihólf á Auðkúlu- og Eyvindastaðaheiðum og eins er búið að fara yfir girðinguna í Kirkjuskarði. Þá hefur vaðið yfir Kirkjuskarðsá einnig verið hreinsað þannig að hægt sé að fara með kerrur fram í Kirkjuskarð. Smávægilegar lagfæringar á girðingum hafa verið gerðar en almennt er ekki fært meðfram girðingum og því ekki hægt að ljúka yfirferð á þeim strax. Þá er ennþá töluvert frost í jörðu og t.d. ekki hægt að reka niður staura og því er beðið með frekara viðhald þangað til að aðstæður leyfa.
Opnun afrétta er sem hér segir:
- Eyvindastaðaheiði opnar 25. júní
- Auðkúluheiði opnar 26. júní
- Grímstungu- og Haukagilsheiði opnar 26. júní (en ekki fært fram að heiðargirðingu eins og staðan er núna)
- Laxárdalur opnaði 24. júní