Nú er nýlokið fresti til að skila inn athugasemdum við samgönguáætlun 2024-2038 í samráðsgátt og miðað við ástand vega í sveitarfélaginu væri hægt að skrifa langa ritgerð um samgöngumál svæðins og þeirra úrbóta sem þörf er á. Það var ekki gert að þessu sinni enda veit Vegagerðin best allra hvert peningar til uppbyggingar á vegakerfi landsins hafa farið og eins hefur athygli stjórnmálamanna endurtekið verið vakin á þeirri staðreynd að þetta svæði hefur verið útundan um áratugaskeið.

 

En við ákváðum að skila inn athugasemdum engu að síður og ekki síst vegna hugmynda um uppbyggingu Kjalvegar sem nú er komin á dagskrá, en þó ekki í samráði við okkur og/eða af frumkvæði okkar. Eftirfarandi er umsögn Húnabyggðar við samgönguáætluninni.

 

Húnabyggð fagnar því að í samgönguáætlun séu áætlanir um að byggja upp Kjalveg en furðar sig á sama tíma á því að sú uppbygging sé eingöngu á suðurhluta Kjalvegar. Þetta stingur í stúf við áður útgefnar yfirlýsingar um að Kjalvegur yrði ekki byggður upp í einstökum áföngum heldur yrði Kjalvegur allur að vera þróaður í heild. Það skal tekið fram að Húna­byggð er ekki sammála fyrri útskýringum Vegagerðarinnar um að uppbygging Kjalvegar sé ekki möguleg nema að allur vegurinn sé undir og fari sem slíkur í umhverfismat. Að sjálfsögðu þarf að hugsa Kjalveg sem sérstakt verkefni, en það er ekkert sem kemur í veg fyrir að hann sé byggður upp í áföngum, eins og nú á að gera. Það er að mati Húnabyggðar mjög mikilvægt að sú uppbygging gerist báðum megin frá þ.e. bæði norðan og sunnan megin.

Það sætir einnig furðu að ekki sé horft til norðurhluta Kjalvegar sem þegar er uppbyggður frá Blönduvirkjun fram að Seyðisá og að ekki sé horft til þess að setja bundið slitlag á þennan vegarkafla. Frá Seyðisá fram að gatnamótunum inn að Hveravöllum væri einsýnt að byggja upp heilsársveg á móti framkvæmdu sunnan megin.

Húnabyggð vill koma þeirri hugmynd á framfæri að uppbygging Kjalvegar sem heildrænni samgönguæð henti mjög vel sem einkaframkvæmd sem væri fjármögnuð með veggjaldi. Húnabyggð skorar á Vegagerðina og yfirvöld að bjóða þessa framkvæmd út sem einka­framtak til að flýta fyrir þessari uppbyggingu.

Við virkjunarsvæði Blönduvirkjunar eru fyrirhugaðar frekari stækkanir á vatnsaflsvirkjunni sem og vindmyllugarður í Blöndulundi (allar þessar framkvæmdir eru þegar í rammaáætlun). Til að hægt sé að vinna þessi verkefni þurfa vegir á svæðinu að þola það álag sem þessari uppbyggingu fylgja og núverandi ástand vega á svæðinu er í engu ástandi til að taka við þeirri uppbyggingu og eru því farartálmi í orkuuppbyggingu landsins. Lagning bundins slitlags á Svínvetningabraut og Kjalveg að Blönduvirkjun var á dagskrá þegar þessir vegir voru byggðir upp vegna þungaflutninga í tengslum við byggingu Blönduvirkjunar fyrir um 35 árum. Af þeim framkvæmdum hefur þó ekki orðið enn. Það er því skýlaus krafa Húnabyggðar að þetta raungerist vegna fyrirhugaðrar orkuuppbyggingar. Því til viðbótar er vert að minna á að Svínvetningabraut er varaleið fyrir þjóðveg 1 þegar Langidalur lokast.

Vegurinn um Blöndudal sem tengir Blönduvirkjun við þjóðveg 1 í Langadal er alls um 16km. Af þessum vegarkafla eru einungis u.þ.b. 3km malbikaðir og er Blönduvirkjun eina vatn­saflsvirkjun landsins sem ekki er hægt að nálgast á malbikuðum vegi. Þetta er að mati Húnabyggðar til háborinnar skammar og í engu samhengi við aðrar virkjanir og tengivegi þeim tengdum.

Að mati Húnabyggðar er kjörið tækifæri fyrir Vegagerðina, Landsvirkjun og Landsnet að vinna sameiginlega að þessu verkefni sem nýttist sem stórauknar samgöngubætur innan sveitarfélagsins samhliða þeirri þörf sem þessar framkvæmdir kalla á. Vegna framkvæmda við vindmyllugarð í Blöndulundi og Blöndulínu 3 á Steinárhálsi er uppbygging vega með bundnu slitlagi í austanverðum Blöndudal fram fyrir Bollastaði og Svartárdalsvegar fram að Stafni óhjákvæmileg og í raun forsenda fyrir slíkum framkvæmdum.

Þá er einnig ámælisvert að mati Húnabyggðar að sveitavegir (tengivegir) í sveitum Húna­byggðar séu nánast hvergi að finna á samgönguáætlun en sveitarfélagið og landshlutinn er það svæði sem hefur einna fæsta malbikaða vegi á landinu. Myndræna framsetningu á hlut­falli malarvega (gular línur) og vega með bundið slitlag (bláar línur) í Húnabyggð má sjá hér að neðan.

 

Eins og sést greinilega er nánast engir vegir með bundið slitlag í sveitarfélaginu nema þjóðvegur 1 sem liggur í gegnum sveitarfélagið. Fyrir utan þjóðveg 1 eru stuttir vegakaflar með bundnu slitlagi á Svínvetningabraut, Reykjabraut og í Vatnsdal. Vegurinn á milli Blönduós og Skagastrandar er síðan með bundnu slitlagi. Sem dæmi er skólaakstur grunnskólabarna meira en 50% á malarvegum í sveitarfélaginu og því um mikið öryggismál að ræða.

Einu framkvæmdirnar í Húnabyggð sem eru á áætlun Vegagerðarinnar er vegkafli í Vatnsdal og flugvöllurinn á Blönduósi, bæði framkvæmdir sem marg oft hefur verið frestað og/eða ýtt aftar í forgangsröðun á síðustu árum.

Vegaframkvæmdir eru greiddar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og það er ólíðandi að þessum gæðum sé svo misskipt sem raun ber vitni. Húnabyggð fer fram á að hlutur sveitarfélagsins verði réttur í þessari samgönguáætlun og framkvæmdum sem þegar hafa verið skilgreindar en endurtekið frestað og ýtt aftar í forgangsröðun verði settar á dagskrá og famkvæmdar.

 

Í tengslum við það að samgönguáætlun var í samráðsgátt hefur kunnulegt stef um veg sem kallaður hefur verið Húnavallaleið sprottið upp, en aðilar hafa sett út á að sú leið sé ekki inn á samgönguáætlun.

 

Nú þekki ég forsögu þessa máls ekki mikið, hef heyrt af þessari hugmynd, en hvað hefur verið rætt og hvernig fólk skiptist í lið í þessari umræðu er mér ekki kunnugt. En ef maður fer yfir málið bæði í gamni og alvöru þá má staldra við nokkur atriði þessarar hugmyndar sem virðist eiga sér stuðningsfólk á Akureyri og á Norðurlandi Eystra.

 

Kannski væri gott að byrja á því að skilgreina hvað þjóðvegur er? Það liggur allavega í orðinu að hann hafi eitthvað með þjóðina að gera og sem slíkur ætti hann því að þjóna sem flestum okkar ef það er á annað borð mögulegt. Í tímans rás hefur hann að ég held verið hugsaður til að tengja saman byggðir landsins þannig að fólk geti ferðast á milli svæða, sótt atvinnu, menntun og að hægt sé að flytja nauðsynjar hvert á land sem er. Þannig að þetta er eins og við þekkjum nokkuð vel þjóðvegur en ekki hraðbraut sem algengar eru erlendis og í flestum tilfellum hugsaðar til að tengja saman stóra þéttbýliskjarna eða borgir. Það virðist vera ástæða til að undirstrika að hraðbraut er ekki það sama og þjóðvegur 1 á Íslandi.

 

Þjóðvegurinn ber reyndar öll merki þess að vera einmitt það en ekki hraðbraut þ.e. hann er í lang flestum tilfellum ein akgrein í sitt hvora áttina (þannig eru hraðbrautir ekki). Hann er síðan líka víða holóttur, það eru á honum einbreiðar brýr (um 30 talsins), fá útskot, blindhæðir, endalausar beygjur, erfiðir fjallvegir og svo blæðir honum reglulega svona til að minna okkur á að hann hefur sál, þjóðarsál.

 

Krafan um að stytta þjóðveginn, um hvað snýst hún? Að það sé fljótlegra að keyra hringinn? Að við séum fljótari að komast á milli Reykjavíkur og Akureyrar? Þetta er svolítið óljós krafa þ.e. að það eigi að vinna að styttingu þjóðvegarins sem er hringvegurinn í kringum landið. Ef það er virkilega það sem við viljum, sem ég er ekki viss um, eigum við þá ekki að skoða það mál af einhverri alvöru? Það eru ýmis tækifæri til að stytta þjóðveginn og Húnavallaleið væri ekki númer eitt á þeim lista það er alveg öruggt.

 

Oft eru bestu rökin í svona umræðu öryggismál þ.e. við viljum gera vegabætur til að auka öryggi vegfarenda um það held ég að við séum öll sammála. Ég hef ekki séð nein gögn sem styðja þá fullyrðingu að umrædd Húnavallaleið væri öruggari, það getur vel verið að þau séu til, en það er að mínu mati ekki nóg að segja þetta til þess að það sé sannleikur. Þjóðvegurinn færi eftir sem áður um Langadal sem er sennilega það svæði sem verið er að vísa í sem hættulegt. Hér er þjóðvegurinn í byggð og á láglendi og því ekki hægt að segja að svæðið sé beinlínis hættulegt þótt hér geti skapast aðstæður t.d. í hálku sem eru varhugaverðar. Það er ansi mikið af fjallvegum ennþá á hringveginum og þeim mætti fækka með gangnagerð og þar er Öxnadalsheiði augljós kostur. Mætti ekki líka skoða Holtavörðuheiði? Ef þessir tveir fjallvegir væru teknir út eða einfaldaðir á einhvern hátt væri öryggi vegfarenda stórlega bætt svo að ekki sé talað um þá styttingu sem gæti skapast. Að setja göng úr Eyjafirði inn í Skagafjörð eru ekki nýjar hugmyndir og væru til lengri tíma mun arðbærari lausn en Húnavallaleið og ætti því að vera ofar á forgangslistanum. Möguleikar hvað varðar fjallvegi eru einnig fyrir austan eins og við vitum.

 

Ef litið er á þjóðveginn í heild sinni og við hugsum eingöngu út frá öryggi væri Húnavallaleið aldrei ofarlega á lista. Það eru ennþá einbreiðar brýr á þjóðveginum, blindhæðir og fjallvegir eins og áður er nefnt.

 

Ef að akstur í gegnum þéttbýli er talin ókostur á þjóðveginum hvað erum við þá að tala um? Helstu faratálmar í þéttbýli á þjóðveginum eru í Borgarnesi, á Egilsstöðum, á Selfossi og á Akureyri. Vegkafli þjóðvegarins í gegnum Blönduós er um 1km og ef gæsirnar eru ekki að ganga yfir þjóðveginn þá tekur um eina mínútu að keyra í gegnum bæinn á 40-50km hraða en vegurinn er í útjaðri þéttbýlisins. Ég skil vel hugmyndir Árborgar og Borgarbyggðar um að flytja umferðina út fyrir þéttbýliskjarana á Selfossi og í Borgarnesi enda er mikill umferðarþungi þjóðvegarins sem þverar stóra hluta þéttbýlisins í báðum tilfellum. Ég veit ekki um Egilsstaði en ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíman heyrt um að færa umferðina á þjóðveginum á Akureyri út fyrir þéttbýlið og miðbæinn. Á Akureyri tekur að minnsta kosti 10-15 mínútur að komast í gegnum bæinn (sjö umferðarljós, hringtorg, nokkur gatnamóta, aðreinar o.s.frv.). Ef mikið er af fólki í heimsókn í bænum tekur þetta mun lengri tíma. Af hverju eru ekki göng undir Eyjarfjörðinn til stytta leiðina og til að koma í veg fyrir að keyrt sé í gegnum umferðarþunga Akureyrar? Göng undir Eyjafjörð gætu sparað 15-30 mínútur vegna aksturs í gegnum Akureyri og annað eins vegna styttingar á þjóðveginum. Það væri t.d. snjallt að fjármagna þetta með vegatollum. Svona framkvæmd mundi t.d. stytta ferðalagið frá Blönduósi til Þórshafnar umtalsvert.

 

Ein hugmynd sem sett hefur verið fram varðandi Húnavallaleiðina er að á nýrri brú yfir Blöndu í Langadal yrði settur á vegtollur sem að hluta til mundi fjármagna nýsköpunasjóð fyrir Húnabyggð til að efla nýsköpun meðal heimanna. Nú vil ég ekki drepa nýskapandi hugmyndir ekki það að vegtollar er ekki ný hugmynd en að ríkið gefi eftir hluta þeirra tolla í nýsköpunarsjóð fyrir heimamenn er ný mundi ég halda. Nú er Húnabyggð orkusveitarfélag og eitt af þeim sveitarfélögum sem er að reyna að ná samtali við ríkið um að rétta hlut þess hvað varðar sanngjarnar greiðslur af þeirri orkuframleiðslu sem hér er. Það er ekki hægt að segja að vel sé tekið í þær hugmyndir og eins og áður segir er Blönduvirkjun eina vatnsalfsvirkjun Landsvirkjunar sem ekki er hægt að keyra að á bundu slitlagi. Því var samt lofað fyrir um 35 árum þegar virkjunin var byggð, sporin hræða því hvað þetta varðar. Það er ekki hlutverk Vegagerðarinnar að fjármagna nýsköpun í landinu og heldur ekki Landsvirkjunar að malbika vegi ef út í það er farið og það færi sennilega best á því að þessi fyrirtæki sinni sínu lögbundna hlutverki og láti aðra um það sem þeim ber að gera. Ef það er sanngjarnt að láta vegfarendur borga nýsköpun í Húnabyggð í gegnum nýframkvæmd í vegamálum, þá er líka sanngjarnt og ódýrara að það sé gert í gegnum vegamannvikri sem þegar er til. Það væri því hægt að setja veggjald á brúnna yfir Blöndu á Blönduósi og efla þannig nýsköpun í Húnabyggð. Á því er sannarlega þörf og engin ástæða til að bíða í mörg ár eftir því þjóðþrifamáli.

 

Vegamál almennt séð eru á hræðilegum stað í sveitarfélaginu og almennt á Norðulandi Vestra reyndar líka og fyrr en bragabót hefur verið gerð í þeim málum er tilgangslaust að ræða hugmyndir eins og Húnavallaleið við heimamenn. Það þarf líka að svara því af hverju þessi landshluti og reyndar aðrir eru svo langt á eftir öðrum í uppbyggingu bundins slitlags á sveitarvegum? Hvernig fer þessi forgangsröðun fram? Fer hún eftir hugmyndum fólks (misgáfulegum) sem hefur áhrif og tengsl eingöngu eða er verið að horfa heildrænt á uppbyggingu samfélaga um allt land? Á meðan á þjóðveginum eru ennþá hættulegir fjallvegir, einbreiðar brýr o.s.frv. þá er umræða hugmynda eins og Húnavallaleiðar ekki tímabærar. Göng milli þéttbýliskjarna sem eru einangraðir (Vestfirðir og Austfirðir) og aðrar brýnar samgönguumbætur eru einnig langt á undan krútthugmyndum eins og Húnavallaleið.

 

Ég þekki ekki hug allra landeigenda sem þetta mál varðar þ.e. landeigenda við núverandi þjóðveg og á Húnavallaleið og gef mér að þar séu skoðanir skiptar eins og gengur. En ef maður fer fljótlega yfir þetta í höfðinu og metur þetta út frá þekktum vinklum eins og umhverfinu, samfélaginu og fjármálum þá verður ekki séð hvar þessi hugmynd skorar hátt. Umhverfislega væri þetta alltaf í mínus þar sem þetta er mikið rask og núverandi vegur yrði áfram þannig að ekkert vinnst í staðinn. Á Húnavallaleið er mikið votlendi og viðkvæmt vatnasvæði og erfitt að segja hvaða áhrif þetta hefði á þessa þætti. Samfélagslegi kosturinn er 14 mínútur fyrir fólk á leið á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Þar er vissulega eitthvað og þá sérstaklega fyrir þungaflutninga, en ef hugmyndin er sett fram til að minnka kostnað fyrirtækja þá þarf bara að segja það. Ef það er málið þá væri kannski heilsársvegur á sama stað og hann er núna yfir Kjöl álitlegri kostur? Gallinn samfélagslega væri að heimafólk væru ennþá á sama stað með aðra vegi í sveitarfélaginu sem er óboðlegt. Fjárhagslega verður ekki séð að fjármunum í Húnavallaleið væru vel varið þegar þörfin er margfalt meiri annarsstaðar í vegakerfinu.

 

Málsmetandi fólk sem vill láta taka sig alvarlega verður hafa burði til að sjá hlutina í samhengi og ekki bara setja mál fram til að afla vinsælda á kaffistofum vinnustaða. Á meðan vegamál á öllu landinu eru í þeim farvegi sem þau eru núna er að einhverju leiti fáránlegt að ræða svona hugmyndir.

 

Að öllu þessu sögðu þá er það ekki svo að Húnabyggð óttist framtíð þar sem breytingar gætu orðið á þjóðveginum í sveitarfélaginu. Þéttbýliskjarninn, Blönduós, þarf að sjálfsögðu að geta verið sjálfbær hvar svo sem þjóðvegurinn er. En tíminn í þetta samtal er ekki núna og við frábiðjum okkur þetta endurtekna taktleysi hugmyndasmiða þessa verkefnis og óskum eftir að þeir hinnir sömu leggist frekar á árarnar með okkur að setja vegamálin hér á þann stað að sómi sé af og þá skapast mögulega rými fyrir svona pælingar. Sé ekki vilji fyrir því þá væri snjallt að beina kröftum sínum að vegaumbótum sem raunverulega skipta máli fyrir fólk og kannski sniðugt að líta sér nær hvað slíkar hugmyndir varðar.

 

Pétur Arason

sveitarstjóri Húnabyggðar

Getum við bætt efni þessarar síðu?