Boðað er til kvennaverkfalls á morgun, þriðjudaginn 24. október undir yfirskriftinni „Kallarðu þetta jafnrétti?“
Konur og kvár hafa verið hvött til að leggja niður launaða og ólaunaða vinnu þann 24. október nk. líkt og konur gerðu þegar fyrst var boðað til kvennafrís árið 1975. Þá lögðu 90% kvenna niður störf á Íslandi til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir samfélagið.
Ljóst er að starfsemi Húnabyggðar er að miklu leyti háð vinnuframlagi kvenna. Húnabyggð tekur undir þau meginmarkmið kvennaverkfalls að hefðbundin kvennastörf, jafnt launuð sem ólaunuð, skuli meta að verðleikum.
Starfsemi Húnabyggðar skerðist töluvert vegna kvennafrídagsins sem boðað hefur verið til á morgun þriðjudaginn 24. október.
Húnaskóli og leikskóli Húnabyggðar verða lokaðir allan daginn sem og bókasafnið og héraðsskjalasafnið.
Sundlaugin á Blönduósi verður einnig lokuð en hægt verður að nota þrek- og íþróttasal.
Skrifstofa Húnabyggðar verður lokuð.