Í apríl mun Þekkingarsetrið bjóða þremur unglingum (15-19 ára) að taka þátt í námskeiði, þeim að kostnaðarlausu, þar sem miðlað verður þekkingu sem nýtast í verkefna- og viðburðastjórnun. Námskeiðið er haldið í tengslum við lista- og menningarráðstefnuna „Hérna!Núna!“ á Blönduósi 27.-28. apríl. Verkefnið hlaut nýverið styrk frá Uppbyggingarsjóði NV. Melody Woodnutt, verkefnastjóri og listakona sem hefur viðtaka reynslu á sviði viðburðastjórnunar, mun hafa umsjón með námskeiðinu.
Sagt er frá þessu á vef Þekkingarsetursins. Námskeiðið er sex kennslustundir samtals þar sem fjallað verður um m.a. áætlanagerð í tengslum við viðburðahald á borð við tónleika, listasýningar eða önnur skapandi verkefni og notkun á Adobe InDesign við gerð auglýsinga- og kynningarefnis. Þetta hentar því öllum sem hafa áhuga á að starfa á vettvangi afþreyingar, skemmtunar og upplifunar (t.d. leikhús, listagalleríum og við ferðaþjónustu). Fyrirhugað er að kenna á mánudögum og fimmtudögum í apríl.
Reiknað er með að nemendur taki þátt í ráðstefnunni þar sem þeir fá að spreyta sig og nýta þá nýja þekkingu sem þeir afla sér á námskeiðinu. Greitt verður fyrir þá vinnu.
Áhugasamir vinsamlegast sendið tölvupóst á skrifstofa@tsb.is eða hafið samband við skrifstofu Þekkingarsetursins í Kvennaskólanum í síma 452 4030 í síðasta lagi fyrir 25. mars.