Húnabyggð og Félags- og skólaþjónusta A-Hún leitar að starfsmanni/starfsmönnum til afleysingar í stuðningsþjónustu. Um er að ræða fullt starf eða hlutastarf (hægt að vinna með annarri vinnu) sem felur í sér stuðning við einstaka heimili/einstaklinga. Þjónustan byggir á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 með síðari breytingum, lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.
Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og styrkja einstaklinga sem þurfa á stuðningi að halda við heimilishald og athafnir daglegs lífs eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal miða að því að efla umsækjanda til sjálfshjálpar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi. Þjónustan skal taka mið af einstaklingsbundnum þörfum og miða að valdeflingu og hvatningu til virkrar þátttöku í samfélaginu.
Áhugasamir geta sent tölvupóst á hunabyggd@hunabyggd.is og hægt er að fá frekari upplýsingar á skrifstofu Húnabyggðar.