Sólarglæta í kortunum
Ársreikningur Húnabyggðar var tekinn til síðari umræðu 11.06.2024 og samþykktur samhljóða í sveitarstjórn. Ársreikningurinn er fyrr á ferðinni núna en í fyrra og við bindum vonir við að á næsta ári verði hann kynntur enn fyrr. Árið 2023 er fyrsta heila árið sem sveitarfélagið Húnabyggð er rekið fjárhagslega sem eitt sveitarfélag.
Heildartekjur námu rúmum 2,5 milljörðum króna og hafa þær vaxið um 11,4% á milli ára. Heildargjöld námu tæpum 2,2 milljörðum króna og hafa þau vaxið um 4,7% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) er um 310 milljónir króna og rúmlega tvöfaldast á milli ára í krónutölu. EBITDA sem hlutfall af heildartekjum er nú 12,4% en var 6,8% árið áður.
Breyting á EBITDA milli ára er 5,6% sem er veruleg bæting og ef EBITDA er leiðrétt hvað varðar söluhagnað á eignum og sameiningarframlögum frá Jöfnunarsjóði á árunum 2022 og 2023 er bætingin 5,3% milli ára sem sýnir að náðst hefur að styrkja grunnreksturinn umtalsvert.
Veltufé frá rekstri var um 214 milljónir en áætlunin hljóðaði upp á 200 milljónir. Veltufé frá rekstri í hlutfalli við tekjur eykst verulega og er nú 8,5% en var 4,1% árið 2022.
Eins og sést á myndinni hér að ofan hefur þessi lykilmælikvarði verið á töluverðu flökti á síðustu árum. Hér er mikilvægt að reyna að ná stöðugleika og helst að þetta hlutfall sé alltaf á leiðinni upp eða í versta falli standi í stað. Það er mikið fagnaðarefni að þessir tveir lykilmælikvarðar hækki svo mikið milli ára sem eru skýr merki þess að við erum á réttri leið.
Heildarfjárfestingar námu um 316 milljónum sem eru að langmestu leyti verkefni tengd uppbyggingu grunninnviða. Fjármögnunarhreyfingar námu um 66 milljónum og voru í samræmi við áætlun.
Eins og sést á myndinni hér að ofan erum við að halda dampi hvað varðar fjárfestingar og höfum aðeins á árinu 2021 framkvæmt fyrir hærri upphæðir ef fjárfestingar beggja fyrrum sveitarfélaganna eru lagðar saman.
Launakostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum er nú 53,9%, samanborið við 57,6% árið 2022. Annar rekstrarkostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum er nú 33,7%, en var 35,7% árið 2022. Á myndinni hér að neðan má sjá samandreginn rekstrarreikning sem sýnir helstu breytingar á milli ára. Hér skiptir t.d. máli að tekjur vaxa meira en gjöld og að endanlega rekstrarniðurstaða er að batna þó að enn sé hallarekstur á sveitarfélaginu.
Í stuttu máli má segja að rekstrarniðurstaða ársins 2023 sé mjög jákvæð og jákvæð þróun tveggja mikilvægustu lykilmælikvarða sveitarfélagsins, EBITDA og veltufé frá rekstri, eru skýr dæmi um að reksturinn er á góðri leið með að verða heilbrigður. Þetta er verulega góð þróun og halda þarf áfram á sömu braut. Árið 2023 var því ár þar sem bæði tókst að halda áfram sókn því sjaldan hefur umfang fjárfestingaverkefna verið meira en einnig tókst að spila vörn þar sem reksturinn er nú í jákvæðri þróun. Verkefnið er þó einungis hálfnað og enn þarf að hagræða og endurskipuleggja til að Húnabyggð verði fjárhagslega sjálfbært.
Fyrir áhugasama þá má sjá ársreikning Húnabyggðar fyrir árið 2023 hér: Ársreikningur Húnabyggðar 2023 | Húnabyggð (hunabyggd.is)
Mikið var framkvæmt á síðasta ári og stefnan er að halda því áfram í ár. Stærsta einstaka verkefnið er bygging nýs leikskóla en það verkefni er farið í útboð sem verður opnað 25. júní og spennandi verður að sjá hvað kemur út úr því. Ef allt gengur að óskum náum við að opna nýjan leikskóla við hlið þess gamla á næsta ári og leysum þar með núverandi plássþörf ásamt því að búa í haginn fyrir næstu ár. Viðhald eigna okkar er einnig fyrirferðamikið og þar er grunnskólinn í forgangi ásamt því að miklar framkvæmdir eru í gangi í íþróttamiðstöðinni. Íþróttamiðstöðin er stór og dýr eign með ýmis konar viðhaldsþörf og þar liggur fyrir á næstu misserum að skipta þarf um gólf í íþróttasal hússins og verið er að skoða tilboð í það verkefni núna ásamt því að skipta þarf um klórkerfi sundlaugarinnar á næsta ári. Ný gufa er nánast tilbúin en það verkefni hefur því miður tafist vegna tafa á afhendingu á lykilíhlutum sem við bíðum eftir og vonandi næst að klára þetta sem fyrst. Félagsmiðstöðin Skjólið er að flytja á sinn gamla stað í félagsheimilinu á Blönduósi og það rými er nú verið að endurbyggja, sett verður lyfta og aðstaðan endurnýjuð frá grunni þannig að ungmennin okkar hafi góða félagsmiðstöð. Sveitarfélagið seldi miðhæðina á Hnjúkabyggð 33 þar sem stjórnsýsluskrifstofan er í dag og framkvæmdir við nýtt stjórnsýsluhús við Húnabraut 5 eru hafnar. Það er því mikið undir í þessum framkvæmdum og allt þarf að ganga upp þannig að við getum tekið þessi rými í notkun í haust og í vetur.
Vinnuskólinn er nú að hefja störf, einni viku á eftir áætlun, vegna þess veðurs sem hefur verið undanfarið. Við höfum því hafið sumarverkefnin bæði í slætti og hreinsun svæða okkar hér í þéttbýlinu. Það er af nógu að taka og bæði vinnuskólinn sem eru ungmenni á aldrinum 13-15 ára og vinnuflokkar ungmenna sem eru ungmenni 16 ára og eldri í umsjón Landsvirkjunar munu hafa í nógu að snúast í sumar. Vinnuflokkar Landsvirkjunar sem eru tveir munu vinna bæði í þéttbýli og dreifbýli í sumar.
Talandi um þetta veður sem var alla síðustu viku þá hefur það lagt mikið álag á bændur, ekki síst sauðfjárbændur sem voru nýbúnir að sleppa lambféi á tún. Þetta var vægast sagt mjög erfiður tími þar sem ýmist þurfti að setja fé aftur á hús, gefa úti og/eða reyna að sjá til þess að ær og lömb hefðu skjól fyrir veðri og vindum. Að sögn bænda er ekki útséð með hver áhrifin af þessu verða og erfitt að segja nákvæmlega til um það fyrr en í haust þegar fé kemur af fjalli. Þetta hefur reynt mikið á mjólkandi ær og margir bændur hafa séð aukin dæmi um júgurbólgu, lömb hafa villst undan og ef tafir verða á því að hægt sé að koma fé af túnum mun það hafa áhrif á heyfeng sumarsins. Margir bændur hafa einnig séð meira kal í túnum en venjulega og ekki hefur verið hægt að vinna tún í þessu árferði þannig að það leggst allt á eitt hvað þetta varðar. Yfirvöld stofnuðu miðlægan viðbragðshóp og viðbragðshópar voru stofnaðir um allt land þar á meðal hér þar sem haft var samband við bændur og álit þeirra á stöðunni kannað og þeim boðin aðstoð. Það er vonandi að yfirvöld sjái til þess að gripið verði til aðgerða til að aðstoða bændur við þessar óvenjuleguaðstæður sem sköpuðust vegna langvarandi kuldatíðar, úrkomu og snjóa í byrjun júní. Menn eru að sjálfsögðu ýmsu vanir hér á Íslandi en það er sjaldgæft að svona veður vari svo lengi og á þessu svæði er þessi mikla vosbúð sem fylgir allri þessari úrkomu sjaldgæf.
Af samgöngumálum berast ágætis fréttir þó að við tökum mögulega öllum fréttum um slíka hluti af ákveðinni varfærni. Framkvæmdir við lagningu bundins slitlags í Vatnsdal og á Svínvetningabraut eru komnar af stað með rannsóknum, umsóknum um námur o.s.frv. og á næstu tveimur árum er áætlað að ljúka þessum framkvæmdum. Þá berast fréttir af framkvæmdum á flugvellinum og við bíðum bjartsýn sem fyrr eftir því að það rjúki úr malbikinu þar. Sveitarfélagið þarf einnig að huga að stórum framkvæmdum í vega- og gatnagerð og þar er mikið af uppsöfnuðum verkefnum. Lagning vegar frá Þverárfjallsvegi og niður að Húnabraut, sem og lenging Holtabrautar inn á þann veg eru í undirbúningi. Þá er kominn tími á ýmis konar viðhald og endurbætur í þéttbýlinu og tíminn verður að leiða í ljós hvað af þessu öllu við náum á þessu ári.
Lýðveldið okkar er 80 ára þann 17. júní næstkomandi og af því tilefni munum við hafa hátíðardagskrá í Félagsheimilinu á Blönduósi. Við höfum boðið sérstaklega öllum íbúum sem fæddir eru 1944 að koma og vera með og við hvetjum alla til að mæta.
Núna stendur yfir kosning um mögulega sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar. Viðræður sveitarfélaganna gengu mjög vel og allan tímann hefur verið mikill vilji beggja til að sameina. Hvernig sem á þetta mál er litið þá er það alltaf hagur fólksins hér á svæðinu að sameinast. Einfalt dæmi um mál sem er stærsta byggðarþróunarmál alls þessa svæðis eru orkumálin og sundruð náum við engu fram þar en sameinuð höfum við mun stærra vogarafl. Samgöngumál væru annað dæmi um málaflokk sem erfitt er að berjast fyrir nema að svæðið standi sameinað. Það væri hægt að nefna flesta eða alla aðra málaflokka sem eru á borði sveitarstjórna hvað það varðar að hagur íbúa er best tryggður ef við erum sameinuð. Við erum ánægð með það fjármagn sem sameiningunni fylgir bæði í beinum framlögum og í verkefnum sem tengjast sameiningunni. Vegabætur á Skagavegi eru t.d. risastórt hagsmunamál dreifbýlisins þar. Fjárhagslega virkar þessi sameining vel fyrir báða aðila þ.e. íbúar Skagabyggðar fá öruggt aðgengi að ýmis konar þjónustu og efnahagur Skagabyggðar settur saman við efnahag Húnabyggðar mun þýða að Húnabyggð mun standa á sterkari fótum verði af sameiningu. Ég hvet alla til að kynna sér vel það efni sem sett hefur verið fram sem er aðgengilegt öllum hér PowerPoint Presentation (hunabyggd.is).
Þá er það sérstakt fagnaðarefni að ákveðið var að kosningaaldur væri miðaður við 16 ár sem sýnir að hugsað er til þess að framtíð þessa svæðis er í forgrunni og hlustað hefur verið sérstaklega á yngra fjölskyldufólk sem og ungt fólk sem hér vill stofna fjölskyldur, byggja upp o.s.frv.
Með góðum kveðjum,
Pétur Arason
Sveitarstjóri Húnabyggðar