Friðrik Halldór Brynjólfsson hefur verið ráðinn Fjármála- og skrifstofustjóri Blönduósbæjar, en starfið var auglýst í síðari hluta október í samstarfi við Intellecta.
Alls sóttu 10 einstaklingar um starfið en eftir vandaða yfirferð og viðtöl þá var Friðrik Halldór metinn hæfastur af umsækjendum og hefur því verið ráðinn til starfa.
Friðrik er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði, með áherslu á stjórnun og fjármál, frá Háskólanum á Akureyri. Auk þess er hann nú í námi til löggildingar fasteigna- og skipasala.
Hann hefur starfað sem aðalbókari hjá Húnavatnshreppi síðastliðin þrjú ár þar sem hann ber meðal annars ábyrgð á bókhaldi sveitarfélagsins, launavinnslu og afstemmingum auk þess að sjá um gjaldkerastörf, reikningahald og vinnu við áætlanagerð og ársreikning.
Einnig ber hann ábyrgð á bókhaldi Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu. Friðrik starfaði áður hjá KPMG á endurskoðunarsviði i tvö ár þar sem hann sá m.a. um bókhalds- og uppgjörsvinnu ásamt vinnu við ársreikninga. Þar hafði hann aðkomu að fjármálum sveitarfélaga.
Þar áður starfaði hann sem gjaldkeri og þjónustufulltrúi hjá Arion banki á Blönduósi í tæp tvö ár. Friðrik mætir þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu um menntun, reynslu og þekkingu, en hann mun hefja störf hjá Blönduósbæ fljótlega á nýju ári, eftir nánara samkomulagi.
Blönduósbær þakkar þann áhuga sem starfinu var sýndur og bíður Friðrik Halldór Brynjólfsson velkominn til starfa sem fyrst á nýju ári.