Prjónagleðin 2019 hefst á Blönduósi í dag og stendur yfir helgina en þetta er í fjórða sinn sem hún er haldin. Í dag milli klukkan 13-17 geta þátttakendur Prjónagleðinnar farið í heimsókn í Ullarþvottastöð Ístex á Blönduósi og séð þvottaferlið og hvernig ullin er undirbúin til spuna. Klukkan 15 hefst prjónaratleikur um Blönduós en hann mun standa yfir alla helgina. Klukkan 17 fer svo setning Prjónagleðinnar fram í bíósal Félagsheimilisins á Blönduósi. Haldinn verður fyrirlestur "See You In Knitland" eða ,,Sjáumst í Prjónalandi" með Louise Klindt. Einnig munu mæðgurnar Steinunn Kristín Valtýsdóttir og Ástrós Elísdóttir syngja nokkur lög.
Milli klukkan 18-22 verður prjónakaffi í Félagsheimilinu þar sem þátttakendur geta átt notalega stund þegar þeir hafa komið sér fyrir. Kaffi og meðlæti er selt á staðnum. Og milli klukkan 20-21:30 fer fram sundprjón námskeið í Íþróttamiðstöðinni. Helga Jóna Þórunnardóttir kennir. Námskeiðið er fyrir þá sem elska bæði prjón og sund. Sundlaugin er opin sérstaklega fyrir námskeiðið og er aðgangur innifalinn í námskeiðsgjaldinu.