15. júlí 2022
Tilkynningar
- Sveitarstjórn Húnabyggðar hefur ráðið Pétur Arason sem sveitarstjóra. Alls sóttu 14 umsækjendur um starfið en 6 drógu umsóknir sínar til baka.
- Pétur rekur ráðgjafafyrirtækið Manino sem sérhæfir sig í stjórnendaráðgjöf, kennslu og ráðstefnuhaldi með áherslu á nýsköpun í stjórnun. Pétur er reynslumikill stjórnandi sem starfað hefur bæði hjá erlendum og innlendum fyrirtækjum og m.a. hjá Marel í 10 ár. Sem ráðgjafi hefur Pétur unnið með fjölda fyrirtækja, sveitarfélaga, stofnana og félagasamtaka. Hann hefur umfangsmikla reynslu af stefnumótunar- og umbreytingaverkefnum bæði í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og á íslenskum atvinnumarkaði. Pétur hefur einnig kennt við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og haldið fjölmörg námskeið um nútíma stjórnunaraðferðir.
- Pétur lauk meistaragráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg árið 2002. Hann er fæddur og uppalinn á Blönduósi og hefur mikil tengsl við Húnabyggð.
- „Ég er spenntur fyrir þessari skemmtilegu og krefjandi áskorun. Ég hef mikla trú á svæðinu og veit að þar er hægt að gera frábæra hluti og gera gott samfélag ennþá betra. Ég hlakka til að starfa með fólkinu, virkja hugvit þeirra og hjálpa þeim og öðrum sem vilja koma að uppbyggingunni að hrinda spennandi verkefnum af stað. Það er mikill mannauður í þessu sveitarfélagi og ég sé endalaus tækifæri til þess að skapa sterka og sjálfbæra framtíð fyrir íbúa svæðisins.“ segir Pétur Arason.
- ,,Við erum að byggja upp nýtt sveitarfélag, Húnabyggð, með skýra áherslu á nýtt upphaf sem byggir á sterkum stoðum þéttbýlis og dreifbýlis. Við höfum valið nýtt nafn og erum að vinna að mótun nýs leikskóla og nýs grunnskóla. Þegar er verið að byggja eitthvað nýtt, þá er gott að vera með verkfræðing sem þekkir vel til aðstæðna. Pétur Arason er Húnvetningur sem hefur þekkingu og reynslu af því að móta stefnu og stýra stórum breytingaverkefnum. Það er frábært að fá hann aftur heim til að liðsinna okkur í þessu stóra verkefni sem ég hef trú á að verði okkur íbúum í Húnabyggð til framdráttar.“ segir Guðmundur Haukur Jakobsson forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar.
- Sveitarstjórn Húnabyggðar hlakkar til samstarfsins við Pétur.
- Umsækjendur voru í stafrófsröð:
- Einar Kristján Jónsson, fyrrum sveitarstjóri
- Glúmur Baldvinsson, leiðsögumaður
- Gunnsteinn Björnsson, sjálfstætt starfandi
- Jón Eggert Guðmundsson, yfirmaður kerfismála
- Jónas Egilsson, fyrrum sveitarstjóri
- Pétur Arason, ráðgjafi
- Viggó E Viðarsson, flokksstjóri
- Örn Haukur Magnússon, framkvæmdastjóri
- Sveitarstjórn Húnabyggðar þakkar þeim umsækjendum sem sóttu um stöðu sveitarstjóra.