Ný fráveitugjöld í Húnabyggð
Í fjárhagsáætlunarvinnu hvers árs er alltaf farið yfir gjaldskrár sveitarfélagsins og þær uppfærðar í takt við þær hækkanir sem ákveðnar eru í sömu vinnu. Oftast er það þannig að gjaldskrár eru hækkaðar almennt um sömu prósentutöluna en alltaf eru einhverjar gjaldskrár sem hækka á annan hátt. Sumar standa í stað, aðrar lækka og enn aðrar hækka umfram almennar hækkanir. Við höfum t.d. á síðustu árum verið að hækka gjaldskrá fyrir úrgangsmál (sorphirða og sorpurðun) umfram aðrar gjaldskrár vegna þess að um langt árabil hefur sveitarfélagið og fyrri sveitarfélög borgað með þeim málaflokki. Það þýðir að gjaldtaka hefur ekki nægt fyrir þeim kostnaði sem málaflokkurinn ber með sér. Í tilfelli úrgangs er ólöglegt að borga með eða niðurgreiða þann málaflokk og þess vegna hefur verið unnið að því að loka þessu gati með árlegum hækkunum sem eru umfram almennar hækkanir. Það var ákveðið að loka þessu gati í nokkrum skrefum þ.e. fyrst var 50% af gatinu lokað, næst 50% af því sem eftir var og sú varð einnig raunin núna, þannig að enn eigum við smá í land með að úrgangsmálin séu sjálfbær og ekki niðurgreidd af sveitarfélaginu. Við erum hins vegar komin ansi langt á sama tíma og við höfum hafið aðgerðir til að lækka heildarútgjöldin, þannig að með bjartsýni má búast við að við náum að lækka heildarkostnaðinn á næstu árum. Ef það tekst lækka gjöldin í þessum málaflokki gangvart íbúum.
Ein af þeim gjaldskrám sem skoðuð var sérstaklega fyrir árið í ár var gjaldskrá fráveitu og einnig voru samþykktir um fráveitu uppfærðar. Í nýju samþykktunum er t.d. skilgeint nákvæmlega hvar ábyrgð sveitarfélagsins og lóðarhafa byrjar og endar hvað varðar fráveitukerfin. Þegar þessi málaflokkur er skoðaður er ljóst að að sveitarfélagið er í grunninn að reka tvö mismunandi fráveitukerfi þ.e. annarsvegar holræsakerfið í þéttbýlinu og hins vegar rotþróarkerfið í dreifbýlinu. Vert er að taka fram að sveitarfélagið rekur eingöngu þær rotþrær sem sveitarfélagið hefur kostað uppsetningu á. Bæði kerfin, þó ólík séu, hafa þó sama tilganginn sem er að hreinsa skólpið og skilja frá föstu efnin og vökvann. Eins og í úrgangsmálunum ber okkur að hafa gjaldtöku sem hvorki er of eða van og gjaldtöku sem endurspeglar raunkostnað í kerfinu. Þetta hefur í raun verið gert í áratugi í þéttbýlinu þ.e. þau gjöld sem fólk borgar þar duga fyrir rekstri, viðhaldi og fjárfestingum í kerfinu og kerfið er því sjálfbært. Þannig hefur það ekki verið í dreifbýlinu þar sem aðferðafræðin hefur verið að fyrir rotþrær sem settar eru upp á kostnað sveitarfélagsins er einungis rukkað fyrir tæmingu þeirra. Engar tekjur hafa því komið til að reka eða viðhalda kerfinu né til þess að fara í nýfjárfestingar. Það kom í ljós þegar tölurnar fyrir 2024 voru skoðaðar að rotþróargjöld námu 4.035.950kr. en kostnaður við tæmingar var 5.100.000kr. Þannig að gjöldin dugðu ekki fyrir tæmingarkostnaðinum. Þar fyrir utan er umtalsverður rekstrarkostnaður árlega á kerfinu.
Venjan í þéttbýli er að rukka 0,25% af fasteignamati húss í holræsagjald og flest sveitarfélög hafa þennan háttinn á þótt að sjálf álagningarprósentan sé misjöfn. Með því að nota sömu aðferð í fráveitu dreifbýlisins næst ekki að loka nema hluta þess mismunar sem er á raunkostnaði og tekjum, sem helgast m.a. af því að fasteignamat í dreifbýli er mun lægra en í þéttbýli. Eftir töluverðar umræður í byggðarráði þar sem málið var rætt fram og til baka af meirihluta og minnihluta var niðurstaðan að útfæra breytinguna á þennan hátt. Eins og í úrgangsmálunum var ákveðið að loka ekki gatinu í einu skrefi heldur taka þessa breytingu í minni skrefum. Það væri auðvelt að bera saman gjöldin á árinu 2024 og 2025, reikna mismuninn, og finna út hversu mikil hækkunin er í prósentum. Það er ekki rétt aðferðafræði þar sem ekki er verið að borga fyrir sama hlutinn þ.e. árið 2024 var verið að borga fyrir tæmingu en 2025 er verið að borga fyrir rekstur, viðhald, nýfjárfestingu og tæmingu. Gjaldtaka er yfirleitt umdeild, ekki síst þegar hún hækkar, en það getur ekki verið sanngjarnt að hluti íbúa borgi raunkostnað fráveitukerfis en aðrir ekki. Það má einnig deila um að svona ákvarðanir þurfi betri kynningu og meiri undirbúning, en það er óumdeilt að grunnþjónusta af þessu tagi á að vera sjálfbær og því er breytingin óumflýjanleg. Það er t.d. hægt að halda því til haga að fólk í þéttbýlinu hefur þurft að sætta sig við miklar hækkanir á þessum gjöldum undanfarin ár í takt við hækkun á fasteignamati. Raunverulegt dæmi um holræsagjald á 254m2 einbýlishúsi á Blönduósi er að þau gjöld voru 119.500kr. árið 2023 en verða nú í ár 159.250kr.
Mögulega er erfitt að hafa gjaldtöku í svona málaflokki algjörlega upp á krónu hvað varðar raunkostnað og stundum er samneyslan að borga niður kostnað þ.e. að í krafti fjöldans getum við gert ákveðna hluti sem annars væru mjög dýrir. Það er t.d. sama sorphirðugjald í Húnabyggð óháð búsetu þótt að stærsti kostnaðarliður í sorphirðu sé keyrsla sorpbílanna og tíminn sem í það fer.
Í lok dags er það í gegnum svona gjöld sem við getum haldið uppi þeirri þjónustu sem íbúar krefjast. Sé þessi þjónusta ekki fjármögnuð þá er erfitt að halda henni við, þróa hana áfram og gera betur. Það eru einnig sterk rök í málinu að með þessari breytingu er öryggi þeirra íbúa sem búa í dreifbýli mun meira þegar kemur að rekstri rotþróa. Það myndu sennilega fæstir vilja fá reikning fyrir þeim viðgerðum sem komið geta upp í fráveitukerfi dreifbýlisins. Slíkur kostnaður getur auðveldlega orðið um og yfir 1-2 milljónir ef skipta þarf um rotþró og/eða siturbeð. Ekkert frekar en fólk í þéttbýli vill fá reikning fyrir því ef eitthvað fer úrskeiðis í holræsakerfinu. Þess vegna er gjaldtaka sem byggir á raunkostnaði kerfanna þar sem allir taka þátt, sanngjörn og gegnsæ aðferð til að halda uppi og þróa áfram nauðsynlega þjónustu.
Með þessu móti borga íbúar þéttbýlisins þann kostnað sem fylgir fráveitukerfi þéttbýlisins og íbúar dreifbýlisins þann kostnað sem fylgir fráveitukerfi dreifbýlisins.
Þessa dagana er verið að uppfæra gjaldskrár og samþykktir og eru flestar gjaldskrár fyrir árið 2025 þegar komnar inn en aðrar munu birtast á heimasíðu Húnabyggðar um leið og þær eru tilbúnar og samþykktar.