• Sveitarstjórn Húnavatnshrepps, kom saman til fundar, föstudaginn 27. maí 2022.
  • Fundurinn fór fram á skrifstofu sveitarfélagsins að Húnavöllum 3 og hófst um klukkan 17.00.
  • Það helsta sem gert var:
    • Ársreikningar vegna ársins 2021 voru samþykktir
    • Samþykkt var að selja Fljótsdragaskála.
    • Meira má lesa í fundargerð fundarins.
    • Eftirfarandi var lagt fram:
      •  Sveitarstjórn Húnavatnshrepps vill þakka þeim, bæði aðal- og varamönnum sem starfað hafa í sveitarstjórn Húnavatnshrepps frá upphafi, alls hafa 38 einstaklingar setið fundi sveitarstjórnar sem aðal- og varamenn frá árinu 2006. Alls hélt sveitarstjórn Húnavatnshrepps 258 formlega fundi, sjö einstaklingar hafa setið fleiri en 100 fundi, en þeir eru: Jón Gíslason, Stóra-Búrfelli, 226 fundi, Þóra Sverrisdóttir, Stóru-Giljá 154 fundi, Björn Magnússon, Hólabaki, 112 fundi, Magnús Sigurðsson, frá Hnjúki, 111 fundi, Jóhanna E. Pálmadóttir, Akri 109 fundi, Jóhanna Magnúsdóttir, Ártúnum, 104 fundi og Jakob Sigurjónsson, Hóli, 103 fundi.

        Sveitarstjórn vill þakka fyrir gott samstarf á því kjörtímabili sem nú er á enda. Að öllu jöfnu hefur verið góð samstaða í sveitarstjórn sem hefur auðveldað meðferð flókinna mála. Á kjörtímabilinu hefur verið mikil uppbygging í Húnavatnshreppi svo sem í viðhaldsverkefnum, ferðaþjónustu og fleiri þáttum, hefur það haft áhrif á rekstur sveitarfélagsins ásamt Covid-19, heimsfaraldri, en þessi atriði hafa kallað á lausnamiðuð verkefni sem gengið hafa með ágætum.

        Mikill tími hefur farið í sameiningaviðræður og undirbúnig þeirra hjá núverandi sveitarstjórn, sem endaði með sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar. Óskar sveitarstjórn nýkjörnum sveitarstjórnar-mönnum sameinaðs sveitarfélags gæfu og gengis við mótun og uppbyggingu þess, til hagsmuna fyrir alla íbúa.

        Sveitarstjórn Húnavatnshrepps vill þakka sveitarstjóra fyrir hans störf og öðrum starfsmönnum fyrir sín störf í þágu sveitarfélagsins og íbúa þess, oft við erfiðar aðstæður og óskar þeim góðs á nýjum starfsvettvangi.

    • Sveitarstjóri lagði eftirfarandi fram:
      •  Undanfarin átta ár hafa verið gríðarlega lærdómsrík fyrir mig persónulega og er ég afar þakklátur fyrir það traust sem ég hef haft í mínum störfum. Samskipti við íbúana hafa verið til fyrirmyndar og er þakklátur fyrir þau samskipti og ekki síður þau sem hafa verið krefjandi. Ég hef átt í afar góðu samstarfi við starfsfólk sveitarfélagsins og er þar unnið af miklum dugnaði og heilindum. Á þessum átta árum hef ég þurft að taka erfiðar ákvarðanir, sem fylgir starfi sem þessu, og hafa þær ekki allar verið auðveldar eða vinsælar.

        Ég hef lýst mig tilbúinn til að halda áfram störfum sem sveitarstjóri í nýju sveitarfélagi sé þess óskað. Annars fela breytingar alltaf í sér tækifæri og þau munu eflaust bíða mín sem og fráfarandi sveitarstjórnarfulltrúum. Ég vil þakka sveitarstjórnarfulltrúum fyrir afar gott samstarf á þessum átta árum. Einnig langar mig þakka starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins fyrir samstarfið og ánægjuleg kynni. Það eru vissulega íbúarnir sem byggja upp gott samfélag.

Hér má sjá fundargerð fundarins:

Hér má sjá ársreikninga 2021

Hér má sjá lista yfir mætingu á fundi sveitarstjórnar frá upphafi til enda:

Getum við bætt efni þessarar síðu?