Málþing um Birgittu Halldórsdóttur

Laugardaginn 7. desember 2024, kl. 13:00 - 16:00 á veitingastaðnum Teni á Blönduósi.

 Skráning hér

Dagskrá:
13:00 Viðstaddir boðnir velkomnir
13:15 - 13:45 Árni Matthíasson: Miðaldra maðurinn og dularfullu konurnar
13:45 - 14:15 Elva Rún Pétursdóttir: Birgitta Halldórsdóttir - frumkvöðull kvenna á sviði glæpasagna
14:15 – 14:30 Birgitta les úr nýju bókinni
14:30 - 15:00 Kaffihlé
15:00 - 15:30 Ævar Örn Jósepsson: ,,Það fellur betur í kramið hjá lesandanum”: var – og er – Birgitta „útlenskari” en karlarnir kollegar hennar á sínum tíma?
15:30 - 16:00 Höfundaspjall með Birgittu

Lokaorð og kveðjur

Málþingið er opið öllum en nauðsynlegt er að skrá sig fyrir 6. desember á hunabyggd.is eða Facebook-síðu Héraðsbókasafnsins!

 

 Elva Rún Pétursdóttir: Birgitta Halldórsdóttir - frumkvöðull kvenna á sviði glæpasagna

Birgitta Halldórsdóttir er einn afkastamesti – og vinsælasti – glæpasagnahöfundur landsins og var lengi vel eina konan í þeirra hópi. Sérstaða hennar sem rithöfundar var og er mikill, því hún blandar saman ástar- og glæpasagnahefðinni sem dansa á mörkum þess að vera æsispennandi ástarsögur og rómantískar glæpasögur.

Elva Rún Pétursdóttir flytur hér fyrirlestur sem hún vann upp úr BA-ritgerð sinni um Birgittu og hennar verk, þar sem hún skoðar meðal annars hvernig nokkrar af sögum hennar falla inn í formúlu klassískra og harðsoðinna glæpasagna.

-------------------------------------

Árni Matthíasson: Miðaldra maðurinn og dularfullu konurnar

Miðaldra bóksafnari rekst á krypplaðan upplitaðan fregnmiða: Forlagaflækja, Týnda brúðurin, Afbrot og ástir, Ást og dagar, Kona vitarvarðarins, Sigrún og Inga. Sjö bækur, fjórar konur, Aðalheiður Karlsdóttir, Ísól Karlsdóttir, Guðbjörg Hermannsdóttir og Birgitta H. Halldórsdóttir. Hvað er í gangi?! Hvaðan komu þessar konur?

Árni Matthíasson, tónlistar- og bókmenntagagnrýnandi, lestrarhestur og sérlegur áhugamaður um allt sem er öðruvísi, kannaði málið.

----------------------------------------------------------------------------

Ævar Örn Jósepsson: „Það fellur betur í kramið hjá lesandanum”

Í viðtali við dagblaðið Dag í desember 1998 segist Björn Eiríksson útgefandi hjá Skjaldborg svartsýnn á framtíð íslensku glæpasögunnar. Hann segir ágætlega hafa gengið að selja bækur Birgittu Halldórsdóttur, en aðra íslenska sakamálahöfunda hafi honum ekki tekist að selja að ráði. Skýringarnar eru tvær, að hans mati: Birgitta hafi náð að skapa sér nafn „á meðan slíkar bækur voru enn í tísku” og svo sé hún líka „útlenskari“ en kollegar hennar – skrifi eins og erlendur höfundur. Og það, segir hann, „fellur betur í kramið hjá lesandanum.“ En var – og er – Birgitta „útlenskari” en karlarnir kollegar hennar á sínum tíma?

Ævar Örn Jósepsson fréttamaður, rithöfundur og foringi Hins íslenska glæpafélags, reynir að komast til botns í því.

Getum við bætt efni þessarar síðu?