Sameining Húnabyggðar og Skagabyggðar – íbúakosningu lýkur á morgun!

Nú stendur yfir íbúakosning um mögulega sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar og henni lýkur formlega á morgun laugardaginn 22. júní 2024.

Sveitarfélögin tvö hafa síðan í janúar unnið mikla vinnu við að undirbúa þessa íbúakosningu sem nú stendur yfir en þessari vinnu hefur fylgt að komast að samkomulagi um tilhögun sameiningarinnar og einnig að ná samningum við yfirvöld um þeirra aðkomu að sameiningunni. Það sýndi sig strax í byrjun viðræðna að einhugur var í báðum sveitarfélögum um að sameinast og því fór mestur tíminn í samningaviðræður við ráðuneyti og Jöfnunarsjóð. Þær samningaviðræður skiluðu að mati sameiningarnefndarinnar ákjósanlegri niðurstöðu fyrir bæði sveitarfélögin og reyndar svæðið allt.

Eftirfarandi er álit sameiningarnefndarinnar eftir að vinnu hennar lauk:

„Það er mat samstarfsnefndarinnar, að undangengnu umfangsmiklu samráði og greiningu, að það væri framfaraskref að sameina sveitarfélögin í eitt sveitarfélag. Þannig verður til öflugt sveitarfélag með sterkari rekstrargrundvöll sem getur bætt þjónustu við íbúa og með aukinn slagkraft“.

Það er mat sameiningarnefndarinnar og sveitarstjórna beggja sveitarfélaganna að kostir sameiningar séu augljósir og í raun sé ekki hægt að koma auga á neina ókosti við sameininguna. Eitt af leiðarljósum þessarar vinnu hefur verið að hagsmunum íbúa beggja sveitarfélaga er best borgið í sameinuðu sveitarfélagi, því stærri og öflugari sem sveitarfélög verða því betri burði hafa þau til að sinna sínu hlutverki og sækja fram með nauðsynleg mál sem eru íbúum svæðisins mikilvæg.

Ef farið er yfir framlög yfirvalda sem tengjast sameiningunni þá eru þau:

  • Inn í samfélagið koma 114 milljónir í sameiningarframlög.
  • Inn í samfélagið koma mögulega rúmlega 100 milljónir í uppbyggingu leikskóla.
  • Leyft verður að veita áður veittu fjármagni (40 milljónum) í frekari uppbygginu Textílmið­stöðvar­innar.
  • Um 7km kafli á Skagavegi verður byggður upp og lagt á hann bundið slitlag og áætlað er að þetta sé framkvæmd upp á 500-700 milljónir. Þetta verkefni var áður ekki á dagskrá og önnur verkefni á svæðinu (Vatnsdalsvegur og Svínvetningabraut) halda áfram eins og áætlað er.

Tekið saman er fjármagnið á bak við þessi verkefni á bilinu 750-1.000 milljónir og það þarf ekki að fjölyrða um það sérstaklega hversu mikil innspýting það er fyrir svæðið okkar.

Skagabyggð er fámennt sveitarfélag og það fámennt að erfitt er að halda uppi þeirri stjórnsýslu sem yfirvöld fara fram á og lög gera ráð fyrir. Það eru töluverð fjárhagsleg samlegðaráhrif vegna þessarar sameiningar í nýju sveitarfélagi og þá eru einnig samlegðaráhrif hvað varðar almenna þjónustu og í stjórnsýslunni sjálfri. Með sameiningu stækkar svæðið og Kálfshamarsvík kemur t.d. inn sem nýr áfangastaður ferðamanna í Húnabyggð. Kálfshamarsvík er gríðarlega fallegt og merkilegt svæði og saman með þeim svæðum sem þegar er verið að byggja upp hér mun þetta styrkja uppbyggingu í ferðmannaiðnaði. Það er sama hvernig þetta er skoðað eða frá hvaða sjónarhorni, þetta er að flestu eða öllu leiti einungis jákvætt. Því stærra sem sveitarfélagið er því meiri slagkraft hefur það út á við og er þannig betur í stakk búið til að berjast fyrir hagsmunum íbúa svæðisins, það er alltaf lokaniðurstaðan.

Við rákumst á fulltrúa beggja sveitarfélaga og notuðum tækifærið og spurðum þau hvaða skoðanir þau hefðu á sameiningu sveitarfélaganna:

„Ég sé ekkert nema jákvætt við sameininguna og fjárhagslega kemur þetta vel út til lengri tíma fyrir bæði sveitarfélögin og það skiptir miklu máli“.

Zophonías Ari Lárusson

„Hagsmunum íbúa á svæðinu okkar er best borgið í sameinuðu sveitarfélagi. Það er gríðarlega erfitt að ná í gegn til yfirvalda með mikilvæg baráttumál eins og t.d. orkumál og samgöngumál og því minni sem sveitarfélög eru því mun erfiðara er það. Þá er einnig hætta á því þegar sveitarfélögin eru mörg og lítil á sama svæðinu að þau sé ekki samstillt í kröfum til yfirvalda um þessi mikilvægu mál“.

Guðmundur Haukur Jakobsson

„Mér líst rosalega vel á sameininguna og finnst mikilvægt að hlustað sé á unga fólkið og finnst frábært að ákveðið var að kosningaaldurinn væri 16 ára. Þau eru framtíðin og þeirra rödd þarf að heyrast. Það er að mínu mati mjög mikilvægt að allir nýti kosningaréttinn sinn.“

Ragnhildur Haraldsdóttir

„Ég er búinn að liggja svolítið yfir þessu til að reyna að finna eitthvað neikvætt, en það hefur ekki tekist. En það sem er jákvæðast er að við fáum tvær fjallskiladeildir í viðbót, það veit á gott“.

Birgir Þór Haraldsson

„Skagabyggð hóf þessa vegferð með valkostagreiningu sem unnin var af unga fjölskyldufólkinu í sveitarfélaginu og þetta var þeirra niðurstaða, mikilvægt að virða það, þau eru framtíðin og sjá hana best fyrirkomið með Húnabyggð“

Erla Jónsdóttir oddviti Skagabyggðar

 

Minnt er á að síðasti kosningadagur er á morgun laugardaginn 22. júní en þá verður opinn kjörstaður í Norðursal Íþróttamiðstöðvarinnar. Kjörstað er lokað klukkan 18:00 og eru allir hvattir til að mæta og kjósa.

Getum við bætt efni þessarar síðu?