Laugardaginn 5. júní næstkomandi fara fram kosningar um sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar.
Rétt til að kjósa hafa allir 18 ára og eldri sem eru á kjörskrá í viðkomandi sveitarfélagi. Kjörskrár liggja frammi á skrifstofum sveitarfélaganna. Einstaklingar geta athugað hvort þeir séu á kjörskrá og hvar þeir eigi að kjósa á heimasíðu Þjóðskrár.
Kjósendur skulu hafa meðferðis persónuskilríki.
Kjörfundir fara fram í hverju sveitarfélagi og verða þeir opnir sem hér segir:
- Kjörfundur í Blönduósbæ fer fram í norðursal Íþróttamiðstöðvar frá kl. 10 til 22.
- Kjörfundur í Sveitarfélaginu Skagaströnd fer fram í Fellsborg frá kl. 10 til 22.
- Kjörfundur í Húnavatnshreppi fer fram á Húnavöllum frá kl. 11 til 19.
- Kjörfundur í Skagabyggð fer fram í Skagabúð frá kl. 12 til 17.
Aðsetur kjörstjórnar verður á viðkomandi kjörstað á kjördag.
Talning atkvæða fer fram á sama stað og hefst eftir að öllum kjörstöðum hefur verið lokað. Verða atkvæða talin og úrslit birt í hverju sveitarfélagi og hér á hunvetningur.is
Um undirbúning, framkvæmd og frágang sveitarstjórnarkosninga fer eftir lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.
Kjörstjórnir Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar