Húnavaka verður haldin næstu helgi, 14.-17.júlí. Er þetta í nítjánda sinn sem hátíðin er haldin og verður um nóg að velja fyrir gesti og gangandi. Dagskrá hátíðarinnar verður fjölbreytt og eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa.
Að venju munu íbúar Húnabyggðar skreyta hús sín og garða með alls konar fígúrum fyrir hátíðina, hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Verðlaun verða veitt fyrir best skreytta húsið, frumlegustu og flottustu fígúruna og fyrir götuna með flestar fígúrur. Styrktarbingó verður svo að kvöldi fimmtudagsins í Félagsheimilinu.
Föstudaginn 15.júlí verður opið hús í Textíl Lab að Þverbraut 1. Flugklúbbur Blönduóss mun bjóða upp á útsýnisflug alla helgina ef verður leyfir. Á föstudagskvöldinu verða glæsilegir tónleikar aftan við íþróttamiðstöðina á Blönduósi.
Laugardagurinn 16. júlí er svo hápunktur hátíðarinnar en þá fer fram golfmót á Vatnahverfisvelli, opið mót í ólympísku skeet verður á skotsvæði Markviss og árlegt Blönduhlaup USAH. Meðal dagskráliða yfir daginn verða tónleikar í Blönduóskirkju, útsýnisflug, fjölskyldudagskrá, tívolí, markaður, fótboltaleikur, kótilettukvöld, brekkusöngurog margt fleira. Dagurinn endar á balli með hljómsveitinni Á móti Sól í Félagsheimilinu.
Sunnudaginn 17. júlí verður froðurennibraut í brekkunni fyrir neðan kirkjuna, Stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu og fleira.
Frekari upplýsingar um hátíðarhöldin og dagskrá Húnavöku 2022 verður að finna á Facebook síðu hennar.
Dagskrá Húnavöku 2022: