Mikið vatn hefur runnið til sjávar í starfsemi leikskóla Húnabyggðar frá upphafi þessa kjörtímabils sem hófst með sameiningu Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar. Eins og með flesta aðra málaflokka hafði sú sameining mikil áhrif á rekstur leikskólans sem þá var á tveimur stöðum þ.e. á Blönduósi og á Húnavöllum. Það varð hins vegar ljóst skömmu eftir sameininguna að hlutirnir þróuðust á einn veg, þ.e. að flestir foreldrar í dreifbýlinu óskuðu eftir því að börnin þeirra færu í leikskóla á Blönduósi. Að lokum varð það úr að leikskólanum á Húnavöllum var lokað enda einungis nokkur börn þar eftir og einsýnt hver þróun mála væri. Rekstur leikskóla er áskorun um allt land eins og kannski flestir vita, það er erfitt að fá starfsmenn og þá sérstaklega fagmenntaða starfsmenn, starfsmannavelta er há, álag mikið, biðlistar o.s.frv. o.s.frv. Á okkar svæði hafa biðlistar ekki verið sérstakt vandamál, þó að það þekkist að fólk þurfi að bíða, en af öðrum algengum vandamálum hefur okkar leikskóli ekki farið varhluta af þeirri stöðu sem flestir ef ekki allir íslenskir leikskólar starfa undir.

Í byrjun árs 2023 tók Sigríður Aadnegard við sem leikskólastjóri og hún og hennar teymi, sem eru 25 starfsmenn, hafa síðan unnið hörðum höndum að því að byggja upp leikskólastarfið í nýju sveitarfélagi þar sem allir hlutir hafa verið í stöðugri þróun og flest í starfseminni breytingum háð.

Leikskólinn á Blönduósi hafði fyrir sameiningu um árabil rekið tvær starfsstöðvar þ.e. í leikskólanum sjálfum, upp á annar hæð í Íþróttamiðstöðinni sem kallað er Svæðið í daglegu tali og einnig um tíma í íbúð við Félagsheimili. Tafir á uppsetningu nýrrar lyftu í Íþróttamiðstöðinni haustið 2023 urðu til þess að ákveðið var að færa deild elstu leikskólabarnanna af Svæðinu í elstu byggingu grunnskólans og í staðinn færa börn úr grunnskólanum inn á Svæðið. Þetta var í raun neyðarúrræði en reynslan hefur síðan sýnt að þetta hentar mjög vel þar sem elstu börn leikskólans eru á þennan hátt að kynnast og venjast grunnskólanum sem auðveldar þeim að hefja grunnskólagönguna. Það er kannski týpískt að stundum verður neyðin til þess að skapa ný tækifæri sem annars hefðu ekki verið prófuð og reynast mjög vel. Þegar leikskólinn á Húnavöllum lokaði haustið 2023 varð ljóst að þáverandi pláss leikskólans á Blönduósi var sprungið og finna þurfti lausnir á þeirri stöðu. Ákveðið var að leysa plássleysið tímabundið með því að útbúa íbúðina við Félagsheimilið sem leikskóla. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem þetta húsnæði er notað sem leikskóli og í raun hefur þetta húsnæði verið hálfgert kameljón í gegnum tíðina og brugði sér í allra kvikinda líki, þar á meðal bæjarskrifstofur.

Þegar hér var komið við sögu er leikskólinn á þremur mismunandi stöðum þ.e. í leikskólanum, í grunnskólanum og í íbúðinni við Félagsheimilið. Ljóst var að þetta var erfið staða og nánast ómögulegt að ná almennilega utan um starfsemina þegar hún var dreifð á þessa staði og að svo stórum hluta í húsnæði sem ekki var hugsað fyrir starfsemina. Það var því ákveðið í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2024 sem fram fór haustið 2023 að setja nýjan leikskóla formlega á fjárhagsáætlun. Þá þegar var staðan orðin ljós og hafði starfshópur unnið að hönnun nýs leikskóla, gert þarfagreiningu o.fl. Farið var í formlegt útboð og fjögur tilboð bárust. Útboðið var sérstakt af því leiti að óskað var eftir því að tilboðsgjafar gætu boðið upp á byggingu sem væri annaðhvort keypt eða leigð þ.e. að verktakar þurftu að geta fjármagnað verkefnið fyrir sveitarfélagið. Þetta var gert af þeirri einföldu ástæðu að á þessum tíma lá fyrir að fjárhagur sveitarfélagsins bauð ekki upp á að sveitarfélagið gæti sjálft fjármagnað framkvæmd sem væri 300-400 milljónir eða stærri. Skuldastaða, lausafjárstaða og stærð fjárhagsins leyfði einfaldlega ekki slíka lántöku. Tilboðin sem bárust voru misjöfn og verðbilið var stórt eða frá u.þ.b. 400 milljónum upp í rúmlega 1,5 milljarð. Þetta helgaðist ekki síst af því að lausnirnar voru misjafnar en sveitarélagið leyfði mismunandi lausnir eins og t.d. einingalausnir. Á endanum var lægsta tilboðið frá Terra sem bauð einingahús sem eru ekki týpískar gámaeiningar heldur vandaðri einingar og húsið því framtíðarhús. Verkefnið með nauðsynlegri vinnu við púða, undirstöður, fyrsta áfanga leikvallar o.s.frv. var á endanum metið á 536 milljónir. Þegar kom að því að ganga til samninga kom í ljós að sú leið að leigja þ.e. að verksalinn fjármagnaði verkefnið var ekki fær. Nýlegar reglur um fjármál sveitarfélaga kveða á um að noti sveitarfélög svokallaða leiguleið, verði þau að varpa þeirri langtíma skuldbindingu inn í efnhag sinn. Þetta þýddi að leiguleiðin var í raun ekki frábrugðin lántökuleiðinni nema að leiguleiðin var í raun dýrari, þar sem við þurftum að borga fjármagnskostnað verktakans. Þetta setti eðlilega verkefnið í erfiða stöðu þar sem ljóst hafði verið allan tímann að við gætum ekki sjálf fjármagnað lántöku af þessari stærðargráðu. Málið var samt skoðað og þá kom í ljós að á þeim tíma sem liðið hafði frá fjárhagsáætlunargerðinni höfðu hlutirnir breyst þannig að nú gat í raun sveitarfélagið klofið fjármögnunina sjálft. Ástæður þess voru minnkuð skuldsetning og verulega bætt afkoma á milli ára sem gerði þetta áður ómögulega verkefni kleift. En þrátt fyrir að þetta væri nú tæknilega hægt var ljóst að slík ákvörðun myndi setja sveitarfélagið í verulega erfiða stöðu. Lántakan myndi í raun keyra sveitarfélagið í botn hvað varðar skuldarhlutfall og gera möguleika þess til að fjárfesta í öðrum verkefnum næstu 2-3 árin algjörlega ómögulega. Þannig að við tóku nokkrir mánuðir þar sem dæmið var reiknað fram og tilbaka, leitað var ýmissa leiða til að leysa málið en að lokum var sú ákvörðun tekin í lok nóvember 2024 að fresta þessu máli. Það var ekki gert af neinni léttúð, allir kjörnir fulltrúar og starfsmenn sem að verkefninu komu höfðu í nær tvö ár unnið að því að vinna þessu verkefni framgang. Fjárfestingaráætlun árins 2025 var síðan staðfest í seinni umræðu sveitarstjórnar 10. desember 2024 sem var sú dagsetning sem ákvörðunin um frestun var formlega tekin. Það voru vissulega skiptar skoðanir um hvort að fresta ætti málinu eða ekki þótt að fjárhagsleg rök væru eindregið á þá leið að skynsamlegt væri að bíða. Fréttir um lokun starfsemi sláturhússins hér á haustmánuðum var t.d. með í því að kjörnum fulltrúum leyst ekki á að binda fjárhagslegar hendur sveitarfélagsins á þann hátt að engin slaki væri til að bregðast við ef eitthvað kæmi upp á sem þarfnaðist tafalausra aðgerða.

Niðurstaðan var því að fresta verkefninu og bíða færis þar til betra tækifæri gefst til að ráðast í þetta verkefni. Hvenær sú staða myndast er ekki hægt að segja með vissu, en það gæti verið hvenær sem er. Með sölu dýrrar eignar eins og Húnavalla fæst laust fé sem mundi minnka lánsþörfina og verkefnið gæti orðið að veruleika. Þá börðumst við hatrammlega við yfirvöld í sameiningarvinnunni við Skagabyggð um framlög til byggingar leikskólans. Lög um Jöfnunarsjóð kveða á um að sveitarfélög sem eru í sameiningu og þurfa vegna hennar að byggja skólahúsnæði geti fengið framlag til byggingu leik- og grunnskóla sem nemi allt að 50% af kostnaðarverði. Undir þetta var ekki tekið og okkur neitað og ekki sér fyrir endann á því hvernig sveitarfélagið mun snúa sér í uppgjöri þeirra samskipta.

Við vorum því aftur komin á byrjunarreit og þau tímabundnu húsnæðisúrræði sem við erum með voru orðin langtímaúrræði. Í fjárhagsáætlun 2025 voru settar inn töluverðar upphæðir til að laga, betrumbæta og aðlaga það húsnæði sem leikskólinn var að nota og var þar aðallega verið að horfa á úrbætur við íbúðina við félagsheimilið sem er nú ungbarnadeild leikskólans. Áður en undirbúningur framkvæmda hófst kom hugmynd til okkar frá leikskólastjóranum, en hún hafði fundið eina leikskóladeild auglýsta á Efniveitunni. Þannig vildi til að leikskólinn í Sandgerði var að selja gámaeiningar sem notaðar höfðu verið tímabundið sem leikskóladeild. Leikskólinn þeirra hafði verið með mygluvandamál og nýr leikskóli var byggður sem nú er tilbúinn. Eftir snarpar samningaviðræður var ákveðið að kaupa þessar einingar og núna stendur yfir undirbúningur þess verkefnis að flytja þær norður og setja upp við hlið leikskólans. Með þessu fáum við eina deild og getum fært ungbörnin úr íbúðinni við félagsheimilið. Yngstu börnin munu fara inn á leikskólann en næst elsti árgangurinn mun fara út í gámaeiningarnar. Elsti árgangurinn verður ennþá í grunnskólanum, enn um sinna að minnsta kosti. Í samhengi hlutanna kostar svona millibilslausn um og yfir 15 milljónir. Þetta er ekki óskalausnin að sjálfsögðu en þetta er heldur ekki vond lausn. Starfsmenn leikskóla Sandgerðis bera þessu góða söguna og með ýmsum aðgerðum sem þau gerðu og fylgja með er hægt að gera svona rými mjög ásættanlegt.

Á meðan að allt þetta var að gerast var Sigríður og hennar starfsfólk á fullu að þróa starfsemina og gera það besta úr þeirri erfiðu stöðu sem skólinn hefur verið í. Það verður að segjast að þau hafa í raun lyft grettistaki og allar mælingar á starfseminni benda í eina átt, sem er rétta áttin. Veikindi starfsmanna hefur minnkað, þekking hefur aukist með sérstakri aðstoð leikskólans við starfsmenn, starfsmannavelta minnkað og nú sækja fleiri um stöður en komast að. Biðlistar eru ekki vandamál en það getur verið ansi erfitt að koma í veg fyrir að enginn þurfi aldrei að bíða, það er nánast ómögulegt. Þá má minna á að leikskólagöld í Húnabyggð eru með þeim lægstu á landinu ef ekki þau lægstu þannig að almennt er þjónusta við foreldra ungra barna Í Húnabyggð mjög góð.

Í þessari vinnu undanfarið þar sem við höfum þurft að finna tímabundna lausn hefur ýmislegt verið rætt og allskonar hugmyndir komið upp. Augljós hugmynd er auðvitað að benda á að sveitarfélagið á einn ónotaðann leikskóla á Húnavöllum. Væri neyðarástand í leikskólamálum væri varla hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd. En við erum ekki í neyðarástandi, allra síst ef horft er á hlutina með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Aðbúnaður stenst allsstaðar skoðun og er almennt í lagi þó vissulega sé þörf á ýmiskonar úrbótum. Sömu sögu er hinsvegar ekki að segja af aðstöðu starfsmanna, hún er ekki til fyrirmyndar allsstaðar og dreifð starfsemi skapar auka álag. Þar er stóra skuldin okkar og við munum leggja okkur fram við að leysa þessi mál á farsælan hátt til skemmri tíma litið og við munum að sjálfsögðu einnig grípa fyrsta tækifæri sem gefst til að leysa þetta mál varanlega.

Árið 2023 og 2024 voru töluverðar framkvæmdir við leikskólann við Hólabraut, en árið 2023 var unnið að framkvæmdum í kjallara en um áratugaskeið hafa verið mikil leka- og rakavandamál vegna kjallarans. Brunnar voru lagaðir og rásir fræstar í sökkulinn til að koma vatni frá húsinu og hafa þær aðgerðir þýtt að ekki hefur safnast saman vatn og raki í kjallaranum sem farið hefur um bygginguna. Það er þó ennþá mikið vatn undir byggingunni sem erfitt er að ræsa fram í leysingum og því er vandamálið ekki alveg úr sögunni en þetta háir ekki starfseminni eins og það gerði áður. Þá voru á því ári sett upp vindföng við innganga í leikskólann, vinnuaðstaða kennara löguð, loftgæði og hljóðvist löguð og tvær deildir málaðar o.fl. Árið 2024 var síðan sett upp ný girðing meðfram Heiðarbraut og gengið frá horninu við Heiðarbraut og Hólabraut sem hefur verið þyrnir í augum margra um langt árabil. Stéttar og aðkoma að leikskólanum var einnig tekin í gegn á síðasta ári. Stytting vinnutíma starfsmanna var innleidd 2023 og fleira mætti tína til en aðalatriðið er að leikskólamál sem málaflokkur fær sömu athygli og aðrir málaflokkar og ef við erum algjörlega heiðarleg, meiri athygli en flestir málaflokkar. Það þýðir ekki að ekki sé hægt að gera betur, það er ekki þannig og það vita allir. En það vita líka allir að fjárhagur sveitarfélagsins leyfir ekki að við gerum allt sem okkur langar til, fjárhagsáætlunargerð hvers árs er endalaus æfing í forgangsröðun og mati á því hvað þarf að gera núna og hvað má bíða. Þetta er ekki æfing sem er auðveld eða með skýrar leikreglur, nánast allir málaflokkar sveitarfélagsins eru mikilvægir og sumir lífsnauðsynlegir. Nokkur dæmi um málaflokka eru málefni grunnskóla, leikskóla, fráveitu, úrgangsmál, vatnsveita, gatnagerð, félagsþjónusta, aldraðir, unglingar, íþróttamannvirki, brunavarnir o.s.frv. o.s.frv. Ekkert af þessu er ekki mikilvægt og á hverju ári eru allir þessir málaflokkar sveltir, bara mismunandi mikið milli ára.

Fjárfesting í nýjum leikskóla var aldrei spurning um að velja á milli þess verkefnis og annarra. Þetta verkefni var og er ennþá spurning um hvort að sveitarfélagið geti farið í svona stórt verkefni án þess að vængstífa fjárhagslega getu sveitarfélagsins.

Þrátt fyrir annmarka á starfsemi leikskólans eigum við að vera stolt af leikskólanum okkar. Þar vinna frábærir stjórnendur sem vinna að því að gera aðstæður starfsmanna og barna eins góðar og mögulegt er og þar vinna frábærir starfsmenn sem hugsa vel um ungviði Húnabyggðar. Starfsmenn Húnabyggðar og kjörnir fulltrúar eru að sama skapi heilshugar á bak við uppbyggingu starfsemi leikskólans.

Þannig að ef þið sjáið starfsmann leikskólans á förnum vegi gefið honum þá fimmu og segið „vel gert!“.

Getum við bætt efni þessarar síðu?