Framkvæmdastjóri Félags- og skólaþjónustu A-Hún, fyrir hönd stjórnar, hefur síðustu misseri átt í samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið vegna rekstrarstöðu Hjúkrunarheimilisins Sæborgar á Skagaströnd.
Leitað hefur verið leiða til þess að lækka rekstrarkostnað heimilisins samhliða því að óska eftir auknum rekstrarframlögum frá ríkinu með breytingu á daggjaldagrunni eða varanlegri fjölgun á hjúkrunarrýmum til þess að reksturinn geti staðið undir sér. Hafa þær umleitanir skilað litlu og hefur rekstrarhalli heimilsins verið verulegur síðustu árin. Við þá stöðu er ekki hægt að una lengur enda er rekstur hjúkrunarheimila á landinu á ábyrgð ríkisins en ekki sveitarfélaga.
Stjórn Félags- og skólaþjónustu A-Hún fundaði þann 29. október síðastliðinn og tók þar ákvörðun um að segja upp samningi byggðasamlagsins við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisráðuneytið vegna reksturs á Sæborg. Er ákvörðunin tekin að vel ígrunduðu máli enda ekki forsvaranlegt að sveitarfélögin sem að rekstrinum standa haldi áfram að greiða tugi milljóna með rekstrinum árlega þegar verkefnið er ekki á ábyrgð sveitarfélaga lögum samkvæmt.
Ekki mun koma til breytinga á rekstri heimilisins um sinn eða uppsagna starfsfólks. Samningur byggðasamlagsins um rekstur heimilisins hefur 6 mánaða uppsagnarfrest og munu viðræður um framhald reksturs fara af stað hið fyrsta. Framkvæmdastjóri átti fund með heilbrigðisráðherra í aðdraganda uppsagnar og eru væntingar til þess að ríkið taki reksturinn yfir að óbreyttu, samfella verði tryggð í rekstri heimilisins og ekki verði rof á þeirri góðu þjónustu sem veitt er á Sæborg. Fjölmörg fordæmi eru fyrir því að þjónustusamningum um rekstur hjúkrunarheimila sé slitið og ríkið komi að daglegum rekstri að nýju. Algengast er að heilbrigðisstofnun viðkomandi umdæmis taki við rekstrinum og eru væntingar til þess að eins verði farið með í tilviki Sæborgar.
Starfsfólki, heimilismönnum og aðstandendum var tilkynnt um ákvörðun stjórnar fyrr í dag.
Ef einhverjar spurningar vakna er frjálst að hafa samband við Alexöndru Jóhannesdóttur sveitarstjóra Sveitarfélagsins Skagastrandar og framkvæmdastjóra Félags- og skólaþjónustu A-Hún í síma 848-0862 eða með því að senda póst á sveitarstjori@skagastrond.is