Fréttatilkynning

  

Blönduósi, 29. september 2022

  

Efni: Sérstakar aðgerðir til að liðka fyrir ráðningum starfsfólks á leikskóla.

 

Á 8. fundi sveitarstjórnar Húnabyggðar, sem haldinn var 13. september s.l. voru samþykktar með 9 atkvæðum samhljóða sérstakar aðgerðir til að liðka fyrir ráðningum starfsfólks við leikskóla Húnabyggðar.

 

Tillögurnar höfðu verið til meðferðar hjá fræðslunefnd og byggðaráði Húnabyggðar en þær eru nú í 5 liðum og hafa verið kostnaðarmetnar og kynntar fyrir núverandi starfsfólki leikskólans sem rekur tvær starfstöðvar, Barnabæ á Blönduósi og Vallaból á Húnavöllum. Gert er ráð fyrir því að hefja innleiðingu á aðgerðunum frá 1. október.

 

Á 5. fundi fræðslunefndar sem haldinn var 28. september s.l. voru samþykkt drög að nýrri starfsauglýsingu sem auglýsir m.a. þær aðgerðir til að liðka fyrir ráðningu starfsfólks  og sveitarstjórn hefur samþykkt. Þar ber helst að nefna að starfsfólk leikskóla sveitarfélagsins uppfylli 100% vinnuskyldu með 7 klst., vinnudegi, hlutstörf skalast hlutfallslega niður á sama hátt. Einnig fá fastráðnir starfsmenn leikskólans árskort í sund og þrek í Íþróttamiðstöðinni á Blönduósi án endurgjalds.

 

Aðrar aðgerðir snúa meðal annars að auknu hópefli meðal starfsmanna, viðbótar undirbúningstíma á deildum og reglubundinni aðkeyptri mannauðsráðgjöf fyrir stjórnendur og starfsfólk.

 

Allar frekari upplýsingar veitir undirritaður ásamt stjórnendum leikskóla Húnabyggðar.

  

Virðingarfyllst,

 

Pétur Arason (sign)

Sveitarstjóri  

Húnabyggð

Getum við bætt efni þessarar síðu?