Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2020 var unnin af byggðaráði og hefur verið góð samvinna allra aðila um áherslur við fjárhagsáætlunargerð. Áætlað er að heildartekjur á næsta ári verði 1.288 milljónir króna og rekstrargjöld verði 1.224 milljónir króna. Rekstur fyrir fjármagnsliði 2020 er jákvæður um 64 milljónir króna, en rekstur fyrir fjármagnsliði 2018 var 49 milljónir króna. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 50 milljónir 2020, en voru einnig 50 milljónir 2018.
Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 14 milljónir árið 2020, en útkomuspá gerir ráð fyrir að 8 milljóna króna afgangur verði af rekstri á árinu 2019.
Veltufé frá rekstri er áætlað 96 milljónir króna árið 2020, en það var um 90 milljónir árið 2018, en útkomuspá gerir ráð fyrir að á árinu 2019 verði 108 milljóna króna veltufé frá rekstri. Veltufjárhlutfall er áætlað 7,5% árið 2020, en útkomuspá gerir ráð fyrir 8,7% hlutfalli árið 2019.
Fjárfestingar eru áætlaðar 161 milljón króna, árið 2020, og ber þar hæst sem fyrr framkvæmdir við Blönduskóla og lóðafrágangur, ásamt öðrum framkvæmdum sem áætlaðar eru á árinu.
Gert er ráð fyrir lántöku að upphæð 110 m.kr., á árinu 2020, en afborganir langtímalána verði 117 m.kr. á árinu. Langtímaskuldir munu standa í stað á næsta ári.
Gjaldskrár hækka almennt um 2,5%, sem er í samræmi við þjóðhagsspá Hagstofu Íslands. Leikskólagjöld hækka þó ekki.
Fjárhagsáætlun Blönduósbæjar fyrir árið 2020 ber þess merki að góður árangur hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins, og mikilvægt að áfram verði gætt aðhalds og varfærni í öllum rekstri. Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað á síðustu tveimur árum og voru 944 þann 1.desember s.l.
Sveitarstjórn vill þakka byggðaráði og starfsmönnum Blönduósbæjar fyrir þá miklu vinnu sem liggur að baki gerð fjárhagsáætlunar og það samstarf sem náðst hefur við alla stefnumörkun.

 

Getum við bætt efni þessarar síðu?