Húnabyggð hefur verið að vinna að deiliskipulagslýsingu fyrir gamla bæinn og Klifamýri á síðustu misserum og nú er komið að því að kynna deiliskipulagslýsinguna fyrir íbúum sveitarfélagsins.
Deiliskipulagslýsingin var samþykkt í skipulags- og samgöngunefnd 29.maí 2024 og staðfest í sveitarstjórn 11 júní 2024.
Deiliskipulagstillagan er auglýst frá 10. júlí til og með 18. ágúst 2024. Hægt er að skoða tillöguna í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar undir málsnúmeri 895/2024 á www.skipulagsgatt.is. Tillagan mun jafnframt liggja frammi til kynningar á skrifstofu sveitarfélagsins að Hnjúkabyggð 33 frá kl. 9-15 alla virka daga. Einnig er hægt að nálgast gögnin á heimasíðu Húnabyggðar hunabyggd.is.
Þau sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn kostur á að koma á framfæri ábendingum varðandi deiliskipulagstillöguna. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast í gegnum Skipulagsgáttina www.skipulagsgatt.is í síðasta lagi 18. ágúst 2024. Einnig er hægt að skila inn umsögnum til skipulagsfulltrúa á skrifstofu sveitarfélagsins að Hnjúkabyggð 33 eða á netfangið bygg@hunabyggd.is.
Umsagnir um skipulagsmál sveitarfélagsins teljast til opinberra gagna. Vakin er athygli á því að nöfn og umsagnir koma fram í fundargerðum Skipulagsnefndar og eru aðgengileg opinberlega á Skipulagsgáttinni.
Persónuupplýsingar eru aðeins nýttar í þeim tilgangi að vinna úr athugasemdum og auðkenna sendanda.
Með framlagningu deiliskipulagslýsingarinnar hefst samráð um gerð deiliskipulagsins. Óskað er eftir því að umsagnaraðilar, eigendur fasteigna á svæðinu, bæjarbúar og aðrir hagsmunaaðilar leggi fram sjónarmið og ábendingar nú í upphafi verks, sem að gagni gætu komið í deiliskipulagsvinnunni.
Af gefnu tilefni er áréttað að í deiliskipulagslýsingunni eru lagðar fram hugmyndir og útskýrð megin hugsun væntanlegs deiliskipulags. Hér er ekki um að ræða endanlega útfærslu deiliskipulagsins heldur deiliskipulagslýsingu sem sett er fram til að skapa samtal og endurgjöf íbúa og hagsmunaaðila væntanlegs deiliskipulags.
Sem dæmi hafa lóðarmál í gamla bænum um áratugaskeið verið umdeild og að mörgu leyti óljós. Til eru þinglýst og ekki þinglýst gögn um lóðarmörk fasteigna víða um gamla bæinn sem áhöld eru um, ekki síst við Brimslóð. Nálgun sveitarfélagsins í þessari deiliskipulagslýsingu er að skilgreind verði í samstarfi við eigendur fasteigna lóðarmörk allra fasteigna sem liggi til grundvallar fyrir væntanlegu deiliskipulagi og framtíðaruppbyggingu svæðisins. Til einföldunar eru sýndar hugmyndir sem byggja á því að utan um fasteignir eru skilgreindar lóðir sem eru takmarkaðar í stærð. Þetta er m.a. gert vegna þess að ekki er gert ráð fyrir neinum nýbyggingum á svæðinu eins og núverandi aðalskipulag kveður á um og eins til þess að skapa tækifæri til að sveitarfélagið geti þróað opna reiti á svæðinu þannig að íbúar og gestir getið notið svæðisins sem best. Um þessi mál hafa alltaf verið, eru og munu alltaf verða skiptar skoðanir og með kynningu þessarar deiliskipulagslýsingar óskum við eftir viðbrögðum lóðarleigjenda á þessum hugmyndum.
Svæðið á sér u.þ.b. 150 ára sögu sem er stórmerkileg og menningarsögulegt gildi svæðisins er gríðarlega mikilvægt fyrir sveitarfélagið, samfélagið í heild sinni og allt Norðurland vestra. Megin stefið í deiliskipulagslýsingunni er að vernda sögu þessa svæðis í heild sinni þ.e. ekki bara gamla bæjarins heldur einnig Klifamýrarinnar. Þetta er mögulega eini staður landsins þar sem upphaflegur miðbæjarkjarni hefur varðveist í tímans rás og því um mikil menningarverðmæti að ræða. Hugmyndin er að ekki verði leyfðar neinar nýbyggingar nema að um sé að ræða endurgerð á húsum sem áður hafa verið á svæðinu og hafa verið rifin. Það er mat sveitarfélagsins að verðmæti svæðisins fyrir sveitarfélagsið og eigendur fasteigna á svæðinu felist í verndun svæðisins og að þannig megi skapa mikil sóknartækifæri fyrir þá sem á svæðinu búa og/eða reka atvinnustarfsemi. Gert er ráð fyrir í deiliskipulagslýsingunni að svæðið verði blanda af íbúabyggð og þjónustustarfsemi en að hefðbundin iðnaðarstarfsemi eigi ekki heima á svæðinu.
Mikil vinna hefur verið unnið í þessu verkefni og sem dæmi er búið að útbúa þrívíddarmódel af svæðinu þar sem hægt er sjá og skoða gamla bæinn eins og hann er núna og hvernig hann gæti litið út ef ákveðnar breytingar eru gerðar. Þetta þrívíddarmódel verður notað til að kynna hugmyndir deiliskipulagslýsingarinnar fyrir öllum hagsmunaaðilum og öðrum sem áhuga hafa.
Hér að neðan má sjá grófa áætlun fyrir tímalínu verkefnisins frá og með útgáfu deiliskipulagslýsingarinnar:
- Júlí 2024: Deiliskipulagslýsing auglýst og kynnt.
- Júlí-október: Deiliskipulagsvinna
- September 2024: Samráð um deiliskipulagsdrög, kynningarfundur og opið hús.
- Nóvember 2024: Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa deiliskipulagstillögu.
- Nóvember-desember 2024: Skipulagstillaga auglýst með sex vikna athugasemdafresti.
- Desember 2024: Skipulagsnefnd gerir tillögu um afgreiðslu.
- Janúar 2025: Sveitarstjórn afgreiðir skipulagstillögu (ef um meiriháttar breytingar er að ræða þá er auglýst aftur).
- Janúar-febrúar 2025: Nýtt deiliskipulag tekur gildi.
Eins og sjá má er þetta ferli umfangsmikið og marglaga en verkefni sem verður að klára þar sem deiliskipulag svæðisins hefur ekki verið hægt að klára um langt árabil. Til þess að sveitarfélagið geti hafið þá uppbyggingu sem að því snýr þarf deiliskipulag að liggja fyrir. Að öðrum kosti mun áfram ríkja óvissa um framtíð svæðisins og hvernig það verður þróað áfram.
Það er von okkar að þrátt fyrir mismunandi sjónarmið um ýmsa þætti framtíðar deiliskipulag svæðisins takist okkur að ná saman og hefja þetta mikilvæga uppbyggingarstarf.
Við biðjumst velvirðingar á því að auglýsing um deiliskipulagslýsinguna fór út í gær án þess að henni fylgdu frekari upplýsingar um tilgang hennar og þess vegna var hún tekin út í gær. Innihald deiliskipulagslýsingarinnar sem hér birtist er í öllu sú sama og birt var í gær.
Deiliskipulagslýsing - Gamli bærinn og Klifamýri
Með vinsemd og virðingu,
Börkur Ottósson
Skipulags- og byggingarfulltrúi Húnabyggðar