Byggðaráð Blönduósbæjar fundaði þann 12. september sl. og fjallaði þar m.a. um bókun byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar frá 9. september, sem fjallaði um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra.
Í fundargerð byggðráðs Blönduósbæjar stendur orðrétt: “Byggðaráð Blönduósbæjar harmar bókun byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, frá 9. september s.l., um að enda það samstarf sem verið hefur í 20 ár á Norðurlandi vestra um málefni fatlaðs fólks, sérstaklega þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður hefur í því samstarfi á síðustu árum verið svokallað “Leiðandi sveitarfélag" og því hefur stór hluti fagþekkingar og þjónustu verið byggður upp í Skagafirði.
Þá lýsir byggðaráð furðu sinni á því að ekki hafi verið látið reyna á nýjan samning, á milli þeirra sveitarfélaga sem lýst höfðu áhuga sínum á að halda samstarfinu áfram, á svipuðum forsendum og verið hefur. Blönduósbær mun leita leiðbeininga og álits Félagsmálaráðuneytis, vegna faglegrar umgjarðar á þjónustu við fatlað fólk á svæðinu og einnig til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um fjárhagslegar forsendur málsins”.