Árið 2023 er fyrsta heila árið sem sveitarfélagið Húnabyggð er rekið fjárhagslega sem eitt sveitarfélag. Tap ársins 2023 nam um 68,3 milljónum króna en fjárhagsáætlun með viðaukum hljóðaði upp á rúma 43 milljóna króna hagnað. Mismunurinn skýrist að lang stærstum hluta í reiknuðum stærðum þ.e. stærðum sem sveitarfélagið hefur lítil áhrif á. Verðbætur (vaxtarstig og verðbólga) voru vanáætlaðar um tæpar 64 milljónir króna og lífeyriskuldbindingar sem að langmestu leiti koma frá Félags- og skólaþjónustu A-Hún voru um 30 milljónir. Þessar tvær stærðir skýra að lang mestu leiti (84%) muninn á endanlegri niðurstöðu og áætlunum.

Heildartekjur námu rúmum 2,5 milljörðum króna og hafa þær vaxið um 11,4% á milli ára. Heildargjöld námu tæpum 2,2 milljörðum króna og hafa þau vaxið um 4,7% á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) er um 310 milljónir króna og rúmlega tvöfaldast á milli ára í krónutölu. EBITDA sem hlutfall af heildartekjum er nú 12,4% en var 6,8% árið áður.
Veltufé frá rekstri var um 214 milljónir en áætlunin hljóðaði upp á 200 milljónir. Veltufé frá rekstri eykst verulega og er nú 8,5% en var 4,1% árið 2022.

Það er mikið fagnaðarefni að þessir lykilmælikvarðar hækki svo mikið milli ára sem sýnir að reksturinn er á réttri leið.
Efnahagur nam um 4,63 milljörðum og þar af eru fastafjármunir rúmir 4,2 milljarðar en veltufjármunir 396 milljónir. Eigið fé nam um 1,1 milljarði eða sem gerir 24,4% eiginfjárhlutfall, samanborið við 26,8% árið á undan. Skuldir námu rúmum 3,5 milljörðum, skammtímaskuldir voru þar af 587 milljónir og veltufjárhlutfall því 0,68 sem batnaði lítillega milli ára.

Heildar fjárfestingar námu um 316 milljónum sem eru að lang mestu leiti verkefni tengd uppbyggingu grunninnviða. Fjármögnunarhreyfingar námu um 66 milljónum og voru í samræmi við áætlun.
Launakostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum er nú 53,9%, samanborið við 57,6% árið 2022. Annar rekstrarkostnaður sem hlutfall af rekstrartekjum er nú 33,7%, en var 35,7% árið 2022.
Í stuttu máli má segja að rekstrarniðurstaða ársins 2023 sé mjög jákvæð og jákvæð þróun tveggja mikilvægustu lykilmælikvarða sveitarfélagsins, EBITDA og veltufé frá rekstri, eru skýr dæmi um að reksturinn er á góðri leið með að verða heilbrigður. Þetta er verulega góð þróun og halda þarf áfram á sömu braut.

Árið 2023 var því ár þar sem bæði tókst að halda áfram sókn því sjaldan hefur umfang fjárfestingaverkefna verið meira en einnig tókst að spila vörn þar sem reksturinn er nú í jákvæðri þróun. Verkefnið er þó einungis hálfnað og enn þarf að hagræða og endurskipuleggja til að Húnabyggð verði fjárhagslega sjálfbært.

Hér má sjá ársreikning Húnabyggðar 2023

Getum við bætt efni þessarar síðu?