Ársreikningur Húnabyggðar fyrir árið 2022 liggur nú fyrir en hann er mun seinna á ferðinni en áætlað var. Þetta helgast af þeirri vinnu sem hefur fylgt sameiningu sveitarfélaganna en sú vinna hefur verið mun umfangsmeiri og flóknari en gert var ráð fyrir. Það er rétt að þakka skrifstofuteymi Húnabyggðar sérstaklega fyrir þrotlausa vinnu í því að koma saman fjárhag sveitarfélaganna, hlutdeildarfélaga, einkahlutafélaga o.fl. saman sem hefur verið ákveðið þrekvirki.
Það er rétt að hafa í huga að þessi ársreikningur er mjög sérstakur þar sem sveitarfélögin voru rekin sjálfstætt u.þ.b. hálft síðasta ár og ekki fyrr hafa hlutdeildarfélög eins og Brunavarnir og byggðarsamlögin verðið reiknuð inn í ársreikning sveitarfélagsins.
Tap ársins nam um 220 milljónum en áætlunin hljóðaði upp á 74 milljóna tap. Megin ástæða þessa eru verðbætur vegna langtímalána.
Veltufé frá rekstri var um 91 milljónir en áætlunin hljóðaði upp á 99 milljónir og á árinu 2021 var þessi tala 38 milljónir sem þýðir að veltufé frá rekstri var mjög nálægt áætlun og mun betra en fyrra ár. All nokkur frávik eru í einstökum liðum ársreikningsins en rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði er nánast á áætlun.
Efnahagur nam 4.415 milljónum og þar af eru fastafjármunir 4.011 milljónir en veltufé 404 milljónir. Eigið fé nam 1.151 milljónum eða 26% af efnahag. Skuldir námu 3.263 milljónum og skammtímaskuldir voru þar af 800 milljónir og veltufjárhlutfall því 0,51 sem er frekar lágt en peningaleg staða um áramót var ágæt. Vegna vaxtaumhverfis á mörkuðum í dag og á síðasta ári þarf að vinna að því að lækka skammtímaskuldir.
Nettó fjárfestingar námu um 218 milljónum en áætlun var 175 milljónir. Frávik hér eru að töluverðu leiti vegna þess að endurgreiðslur/framlög vegna fjárfestinga hafa ekki borist en koma inn á árinu 2023. Fjármögnunarhreyfingar námu 182 milljónum og voru í samræmi við áætlun.
Ársreikningur ársins 2022 er fyrsti ársreikningur sameinaðs sveitarfélags og ber þess merki vegna kostnaðar sem fylgir sameiningu en einnig koma framlög vegna sameingar frá Jöfnunarsjóði. Auk þess hefur upptaka nýrra reikningsskilareglna um samrekstarfélög nokkur áhrif á ársreikninginn.
Heildarniðurstaðan er viðunandi þar sem rekstrarárið var mjög sérstakt vegna sameiningarinnar og að því viðbættu voru ytri skilyrði óhagstæð og fjármagnskostnaður á langtíma- og skammtímaskuldum verulega meiri en venjulega. Ljóst er að sveitarfélagið þrátt fyrir sókn og áætlanir um ýmiskonar framkvæmdir þarf að stíga varlega til jarðar til að bæta rekstur og helstu lykilmælikvarða sveitarfélagsins.
Hér er hægt að sjá ársreikning Húnabyggðar 2022