Um áramót er eðlilegt að hugsa til baka. Um það sem gert var, um það sem við ætluðum að gera, um þau verkefni sem til féllu án þess að sérstaklega væri kallað eftir þeim. Hvernig við náðum að leysa þau verkefni sem okkur var falið. Hvað var vel gert og hvað hefði mátt betur fara? Við hugsum til þeirra sem búa við ástvinamissi eða sorg.
Við erum öll hluti af heild, við höfum öll hlutverk í okkar samfélagi, við reynum að leysa það eftir bestu getu.
Nýtt ár er að renna upp, með sýnum nýjum áskorunum, nýjum markmiðum og nýjum tækifærum. Þá er gott að horfa fram á við og skoða hvernig best er að nýta tímann og hvaða leiðir maður ætlar að fara til að ná settum markmiðum. Hvernig við getum bætt okkur sem manneskjur og samfélagið í leiðinni og látið gott af okkur leiða.
Fyrir Húnavatnshrepp er það von mín að við öll náum að skapa betri tækifæri og aðstæður til að ungt fólk geti snúið til baka og sest að á sínum heimaslóðum. Að það hafi meiri möguleika á vinnu við hæfi og að það séu fjölbreyttir búsetukostir og atvinnukostir í boði fyrir þá sem vilja flytja til baka. Önnur umgjörð er til staðar, fjölbreytt mannlíf og menningarlíf, góður grunnskóli og ódýr og góður leikskóli, frábærar aðstæður til útivistar hvers konar og svo mætti áfram telja. Svo eru það forréttindi að lifa við öryggi, friðsæld og nálægð við náttúruna.
Megi nýtt ár færa ykkur hamingju, gæfu, gleði og farsæld
Sannleikurinn mun gera yður frjálsa.
Gleðilegt nýtt ár.
Einar Kristján Jónsson,
sveitarstjóri