Ágætu íbúar Húnabyggðar
Það hefur ekki heyrst mikið frá mér opinberlega síðan ég tók við starfi sveitarstjóra Húnabyggðar 1. ágúst síðastliðinn. Fyrstu þrjá mánuðina var ég reyndar ekki hérna fyrir norðan en frá 1. október hafa ég og konan mín Katrín M. Guðjónsdóttir verið hér við dagleg störf.
Það er auðvitað margtuggin klisja að maður hafi svo mikið að gera að það gefist ekki tími í hitt og þetta hvað þá að vera í formlegum samskiptum við ykkur, en það er nú bara samt svolítið þannig sem þetta er búið að vera. Það er nú sennilega ekki út af því að sveitarstjórastarfið sé flóknasta og erfiðasta starf í heimi, en mögulega frekar út af þeirri staðreynd að við vorum og erum enn að sameina tvö sveitarfélög og það er margslungið verkefni.
Það hefur sennilega heldur ekki hjálpað neitt að ég er að sjá marga af þeim hlutum sem ég er að sýsla með í fyrsta skipti og það hefur eitthvað að segja. Ég hef líka rekið mig á að ekkert gerist af sjálfum sér, ýmiskonar hlutir eru hvergi skilgreindir, sumir samningar eru munnlegir eða erfitt að finna og margt byggir á því fólki sem áður var við störf og er nú farið. Ég held að þetta sé síst verra hér en annarsstaðar en klárlega ekki eins og ég hefði kosið og þetta er eitthvað sem ég vil og mun breyta. Ég vil almennt séð að stjórnun sé sjálfbær og ekki háð ákveðnum einstaklingum og slíka stjórnun mun ég kappkosta að innleiða.
Eins og allir vita er sameining sveitarfélaganna það verkefni sem allt snýst um hjá okkur í augnablikinu og eins og áður segir er það margslungið verkefni. Grunnskólinn var fyrsta stóra prófraunin og þegar lengra líður frá munum við geta með vissu dæmt hvernig til tókst en miðað við stöðuna akkúrat núna hefur þetta tekist frábærlega hjá því frábæra fólki sem vinnur í grunnskólanum. Auðvitað má gagnrýna aðdraganda sameiningarinnar í sumar og að þetta hafi gerst of fljótt og fyrr en áætlað var. Sú gagnrýni á rétt á sér og það skiptir máli að sjónarmið allra heyrist og að á fólk sé hlustað. En þegar allt kemur til alls þá er bara eitt sem skiptir máli og bara einn raunverulegur mælikvarði á þessa breytingu og það er upplifun og skoðun barnanna sem sækja grunnskólann. Ég hef ekki heyrt neitt annað en að þau séu bæði jákvæð og ánægð með breytinguna og ég treysti því að það sé rétt. Þegar það er staðreynd málsins skiptir í raun engu máli hvað okkur fullorðna fólkinu finnst, þetta snýst bara um þeirra hagsmuni og engra annarra.
Við fengum nýtt nafn og það gerðist aðeins áður en ég kom og ég hef ekki heyrt skiptar skoðanir um sjálft nafnið nema þá helst að sumir vilja nota það sem mest og þá er hægt að deila um hvort að hlutirnir heiti ennþá sínum gömlu nöfnum eða hvort að allt heitir nú Húnabyggð. Þetta tel ég nauðsynlegt að hafa opið svo að hægt sé að ræða um eitthvað yfir kaffibollanum og á fjésbókinni. Eitthvað var tónninn öðruvísi varðandi val á nafni nýja grunnskólans og mögulega fórum við of langt í að ekkert mætti vera eins og það var fyrir sameiningu til að engin yrði sár, en nýtt og fallegt nafn, Húnaskóli, er staðreynd. Til þess að tryggja þetta húnablæti urðu úrslit kosninga um nýtt byggðarmerki á þá leið að nýtt merki skartar tveimur húnum sem eru sameinaðir í faðmlagi og tákna því ýmsa hluti eins og t.d. sameiningu tveggja sveitarfélaga o.s.frv. Hér fór samfélagið aðeins á flug í athugasemdum eins og eðlilegt er og sýndist sitt hverjum. Merkið vann reyndar með yfirburðum eða 60% atkvæða þannig að flestir eru ánægðir, en sumum finnst þeir heldur brúnaþungir og aðrir eru búnir að fá nóg af þessum endalausa húnafókus. Einhver benti á að ísbirnir væru ekki þekktir fyrir að vera glaðlynd dýr og annar vildi meina að þetta væri ekki ólíkt svipnum á nýja sveitarstjóranum sem sitji oft brúnaþungur á skrifstofunni og reyni að finna út úr því hverju hann er búinn að koma sér út í. En hvað sem því líður þá held ég að nafnið á sveitarfélaginu, grunnskólanum og merkið okkar eigi allt eftir að eldast vel og festast vel í sessi um ókomna framtíð. Það er líka vert að minnast á það að við höfum verið að nota álit og skoðanir ykkar í þessum ákvörðunum og t.d. skoðanakannanir til að velja byggðarmerki er jákvætt skref í þá átt að auka íbúalýðræði. Við gátum reyndar ekki leyft fullt lýðræði í vali á nafni grunnskólans en börnin voru mjög hugmyndarík þegar koma að nafngiftum þar. Nöfn, þar sem orð eins og glimmer, einhyrningur og besti komu fyrir voru mjög algeng. Orðið á götunni var reyndar að nafnið „N1 skólinn“ hefði átt að vinna, en það er önnur saga.
Sem nýtt sveitarfélag reyndist nýyfirstaðin fjárhagsáætlunargerð okkur erfiðari en venjulega þ.e. það var meiri óvissa í ferlinu en vanalega þar sem kerfin okkar eru enn ekki fullkomlega sameinuð í eitt. Ég er reyndar mikill talsmaður einfaldra áætlanna því eins og allir vita þá er það eina sem við vitum þegar við erum að spá fyrir um eitthvað er að við höfum rangt fyrir okkur. Eina spurningin er bara hversu rangt við höfum fyrir okkur. Þannig að einföldun hér er af hinu góða og ég held að okkur hafi tekist það þó að eftir eigi að slípa til það verklag, en það verður verkefni næstu ára.
Góður vinur minn sagði þegar hann frétti að ég hafði tekið við þessu starfi, „Sama hvað þú gerir ekki snerta fjallskil, ekki einu sinni með töngum!“. Þetta hafði ég í huga í u.þ.b. tvær vikur en síðan var ég farinn að spyrjast fyrir um málið. Ég er enn að læra en hef þó komist að því að við erum að skilja og framkvæma fjallskil á mismunandi hátt í sameinuðu sveitarfélagi. Það er mögulega eðlilegt sé tekið tillit til sögunnar, mismunandi svæða o.s.frv. En ég lét reyna á þetta og landbúnaðarnefnd kallaði til allar fjallskilanefndir sveitarfélagsins á fund og ég leyfi mér að fullyrða að það var í fyrsta skipti sem það hefur verið gert. Það var búið að spá því að á þeim fundi yrði hver höndin uppi á móti annarri, en eins og ég nefndi áður eru spár alltaf vitlausar, bara misvitlausar. Fundurinn var hinn besti og auðvitað eru skiptar skoðanir um ýmis mál en aðalatriðið fannst mér að það er mikill samhljómur í fólki og fólk vill þróa hlutina áfram, eitthvað sem ég tel algjöra forsendu þess að við náum vopnum okkar í landbúnaði.
Það er búin að vera mjög jákvæð athygli á komu fjárfesta hingað á svæðið okkar sem ætla að byggja upp gamla bæinn á Blönduósi ásamt þeim sem þar þegar starfa og sveitarfélaginu. Þessi jákvæðni er að einhverju leiti vegna þess að þeir hafa lofað umtalsverðu fjármagni í uppbygginguna og uppbyggingin er þegar hafin. En ég held að megin ástæða þess að fólk er almennt jákvætt fyrir þessu sé sú að þarna eru á ferð vel þekktir heimamenn sem ólust upp á Blönduósi og hafa þangað sterkar taugar og rætur. Auðvitað eins og aðrir fjárfestar eru Reynir og Bjarni Gaukur að þessu af því að þeir trúa á viðskiptahugmyndina á bak við þetta, en hjartað er á réttum stað og það skiptir gríðarlega miklu máli. Við héldum tvo hugmyndafundi annan á Blönduósi og hinn í Reykjavík þar sem mættu samtals um 100 manns og ótrúlega margar skemmtilegar og frjóar hugmyndir komu upp á yfirborðið. Það var sameiginlegt með fundunum að það er skemmtilega sterk virðing, jákvæðni og trú á gamla bænum. Hann lifir á einhvern óútskýrðan hátt mjög sterkt í hugum og hjörtum þeirra sem þar ólust upp, störfuðu eða upplifðu þegar hann var í blóma. Uppbygging gamla bæjarhlutans á Blönduósi er samofin ferðamannaiðnaðinum og ætlunin er auðvitað að ná til hluta þess gríðarlega fjölda fólks sem keyrir í gegnum sveitarfélagið á hverju ári. En þar koma að sjálfsögu aðrir staðir til og mikil uppbygging hefur t.d. verið við Þrístapa og það svæði ásamt Ólafslundi og gamla skólahúsinu munu spila lykilhlutverk í því að stoppa ferðamenn þannig að sýna megi þeim hvað svæðið hefur upp á að bjóða. Við Ólafslund er eins og allir vita stutt niður á Þingeyrar, Vatnsdalshólarnir blasa við, Vatnsdælasagan, Kattaraugað, fossarnir o.fl. inn í Vatnsdal, allt við hendina. Á hinum endanum í sveitarfélaginu höfum við Húnaver með frábærri aðstöðu einnig til að stoppa ferðmenn. Við þurfum að byggja þetta allt saman upp sem einhverskonar heild og spila þannig á alla strengi sveitarfélagsins, þeir eru nefnilega ansi margir þegar allt kemur til alls.
Orkumál munu verða fyrirferðamikil á næstu árum, þau hafa svo sem alltaf verið það, en núna eru þau sennilega mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Þið heyrið mikið talað um orkuskipti og það getur verið erfitt fyrir leikmenn að átta sig á því hvað þær breytingar munu hafa í för með sér. Við erum orkusveitarfélag þ.e. við erum með vatnsaflsvirkjun og búum því vel, eða hvað? Þið vitið auðvitað betur en ég að loforð um orku heim í hérað hefur aldrei verð fyllt. Það er reyndar hægt að spyrja sig hvort að við værum eitthvað betur sett hefði það gerst, en eftir stendur að loforðið varð aldrei að veruleika. Ég vil halda því fram að við lifum á nýjum tímum hvað þessi mál varðar. Það er ekki ásættanlegt að við séum að fórna náttúru- og landgæðum sem og öðrum gæðum án þess að fá fyrir það sæmandi arðgreiðslu sem samfélag. Hér er ekki nóg að fá loforð um malbikaða vegi eða framtíðar orku í möguleg fyrirtæki sem verða kannski eða kannski ekki að veruleika. Við þurfum einfaldlega að fá arðrgeiðslu af þeirri auðlind sem við erum að veita aðgengi að og þetta getur aldrei verið í formi eingreiðslu heldur verður þetta alltaf að vera t.d. árleg greiðsla á líftíma þeirra lausna sem settar eru upp. Þetta er ekki bara sanngjarnt, þetta er eina vitræna lausnin viðskiptalega séð og í raun galið að flytja öll verðmætin út úr sveitarfélaginu án þess að samfélagið fái að njóta neins nema verktakastarfa á uppbyggingartímanum og mögulega einhverra fasteignargjalda eftir það. Það eru margar hugmyndir upp í dag um ýmiskonar orkuuppbyggingu og við þurfum að standa í lappirnar og verja okkar heildarhagsmuni og ekki tapa okkur í sérhagsmunum fárra eða mögulega engra. Ég sé fyrir mér að það muni reyna töluvert á okkur að standa saman á móti þeim hagsmunaöflum sem þegar hafa hafið sína herferð með hagsmuni annarra en okkar fyrst og fremst að leiðarljósi. Hér er ég ekki bara að tala um einhverja lukkuriddara sem ríða um héruð og falbjóða snákaolíu heldur ríkisfyrirtæki í okkar eigu sem eru sannarlega ekki að vinna með hagsmuni okkar samfélags að leiðarljósi, það er bara ískaldur veruleiki. Staðan í dag er þannig að raforka er mjög takmörkuð hingað á svæðið og heitt vatn er í raun af skornum skammti. Við þurfum að nýta okkur það að við eigum mismunandi auðlindir sem við getum notað ekki bara okkur til hagsbóta heldur öllum landsmönnum, en lykilatriði er að hagsmunir okkar séu tryggðir. Þetta bara getur ekki verið öðruvísi.
Úrgangsmál er annað stórt mál sem mun taka mikið pláss á næstu árum einfaldlega út af því að við erum komin að þolmörkum hvað þau mál varðar. Við erum enn að greiða niður stóran hluta sorphirðugjalda þó það sé ekki löglegt og ég tel mig vita að nokkuð stór hluti íbúanna hér sé alls ekki sáttur við að þessi gjöld séu að hækka. Það er í sjálfum sér í lagi að vera á móti því að hlutir hækki í verði, þannig erum við jú öll. Vandamálið hér eins og ég sé það er að við erum bara alls ekki sátt við að að sorphirða og rusl eins við kölluð það oftast kosti einhverja peninga. Það á bara að moka þessu ofan í holu og svo er það vandamál einhverra annarra seinna að eiga við það. Þetta er hugsunarháttur sem við verðum að vinna með og þróa, ekki bara út af umhverfislegum þáttum, sem ættu að vera nægjanleg ástæða heldur vegna þess að við erum að sóa fjármunum. Við erum að moka peningum ofan í holu! Um leið og við sjáum verðmætin í því sem við eyðum ómældum kostnaði í að losna við og farga, þá breytist mögulega hugarfarið. Ég veit að þetta mun taka tíma og ég veit líka að mörg ykkar eru alls ekki sammála mér en við verðum að taka samtalið og finna lausnir. Við erum alls ekki sjálfbær hvað þessa hluti varðar eins og staðan er í dag og landshlutinn okkar er undir landsmeðaltali hér á flestum mælikvörðum. Ég sé Stekkjarvík sem lykil að framtíðinni hér, ekki með því að auka það magn sem þar er urðað heldur að nýta þá hluti sem annars væru urðaðir þar. Þar eru gríðarleg tækifæri.
Þessi óveðurský þ.e. orkumálin og úrgangsmálin er samt hljóm eitt miðað við framtíð og örlög félagsheimilanna okkar. Þar er nú eitt hressilegt óveðursskýið. Hvað eigum við að gera við Félagsheimilið á Blönduósi, Dalsmynni og Húnaver? Þetta er áhugaverð spurning og henni verður auðvitað ekki svarað nema í gegnum samtal við ykkur sem þessi hús nota. En að öllu gríni slepptu þá eru félagsheimilin ágætt dæmi um áskoranir þess að sameina sveitarfélög. Þetta er jú sagan, þetta eru húsin sem pabbi og mamma, afi og amma byggðu o.s.frv. Hérna eru miklar tilfinningar, eðlilega. En við þurfum að koma þessum húsum í notkun og talandi um sjálfbærni þá standa þau á engan hátt undir sér, ekkert af þeim og meira segja mjög langt frá því. Hér er gott dæmi um samtal sem við þurfum að taka saman, í fullri virðingu og að sjálfsögðu lausnarmiðuð. Þetta er einnig ágætis dæmi um þá áskorun sem við höfum í því að sameina okkur öll í einu sveitarfélagi. Við erum ekki bara að sameina tvö sveitarfélög, við erum að sameina alla þessa gömlu hreppa sem voru forverar sveitarfélaganna. Því verki var ekki lokið og spurning hvort og hvernig því ljúki? Er það þegar við erum bara með eitt þorrablót? Eitt jólaball? Sömu fjallskilin allsstaðar? Ég er ekki með svarið en það vantar ennþá töluvert upp á að við treystum hvert öðru fullkomlega. Mér finnst allt í lagi að viðhalda þeim hluta gamla hrepparígsins sem snýst um góðlátleg grín og þó að það slæðist stundum eitthvað með sem betur mætti kyrrt liggja. En það er algjörlega ónýtt að vera föst í sömu hjólförunum og við vorum í fyrir einhverjum áratugum síðan. Það er einnig algjörlega tilgangslaust að tala niður þær tilraunir sem fólk gerir til að skapa eitthvað nýtt eða búa til viðskipti eða einhverskonar starfsemi. Við verðum að skilja að velgengni nágranna okkar er velgengni okkar, það er einföld hagfræði. Þetta á ekki bara við innan sveitarfélagsins heldur einnig um nágranna sveitarfélögin. Einhverra hluta vegna hefur það tíðkast í gegnum tíðina hjá okkur að brosa út í annað og jafnvel tala niður fólk eða hugmyndir þeirra sem reyna að gera eitthvað nýtt eða öðruvísi. Þetta er leiðinda minnimáttarkennd eða heimóttaskapur sem okkur er ekki í blóð borin og við ættum að venja okkur af. Það þýðir ekki að ég sé á móti gagnrýnni hugsun, eins og þessi pistill er gott vitni um, en þrotlaus neikvæðni í bergmálshellum er leiðinda dropi sem holar steininn til lengri tíma litið. Gagnrýnum, alveg endilega, en rýnum þá til gagns, komum með hugmyndir að lausnum og bendum fólki á aðrar leiðir en þær sem við gagnrýnum. Það er í raun mjög hættuleg staða þegar enginn segir neitt og allir eru sammála, þannig að við viljum það ekki. En við verðum að muna að hvetja fólk til góðra verka. Það er oft svo ótrúlega lítið sem þarf til að ýta fólk af stað í eitthvað sem það hefur ekki trú á að gera. Hugvit er auðlind sem við eigum endalaust af en sennilega sú sem við nýtum hvað verst.
Ein af arfleiðum okkar svæðis er landbúnaður, ég sé enga aðra lausn í þeirri atvinnugrein aðra en nýsköpun. Nýsköpun í þessarri grein þar sem einstaklingsframtak sem og samvinna fer saman er óstöðvandi. Þjónustuiðnaðurinn (önnur arfleið okkar) sem verið er að byggja upp þarf hráefni, bændur geta selt öllum þeim fjölda ferðamanna sem fara í gegnum sveitarfélagið vörur og þjónustu (eða bæði). Það er ekkert sem stoppar þetta, tækifærið er þarna til að nýta það, svo einfalt er það. Við þurfum að hafa þá framtíðarsýn að svæðið okkar verði þekkt vörumerki í matvælaframleiðslu og búin hvert fyrir sig þekkt vörumerki. Fólk vill kaupa gæði, upplifun og það vill rekjanleika, þekkja upprunann o.s.frv. Þetta eru ekki nýjar fréttir, fullt af bændum hringinn í kringum landið eru þegar að nýta sér þetta og einhverjir hér líka. Við þurfum bara að gera mun meira af þessu. Ég er alls ekki að tala fyrir patent lausnum, nýsköpun snýst um tilraunir ekki að gera eins og allir hinir, sérstaða er lykill að samkeppnisforskoti. Hérna kemur sjáfbærni einnig inn, hvað með allar aðrar afurðir eins og ullina, innyfli, bein o.s.frv.? Við erum í dauðafæri með ullina sem í samvinnu við Textílmiðstöð Íslands gæti orðið blómlegur iðnaður þar sem við eigum alla virðiskeðjuna (í því eru gríðarleg markaðsleg verðmæti). Við gátum þetta í gamla daga með Pólarprjón o.s.frv. og getum þetta líka í dag.
Ég veit ekkert hvort að það skiptir máli að það sé heimamaður sem er sveitarstjóri. Kannski er það bara verra þegar uppi er staðið. Það vitum við ekki alveg strax. Ég held samt að það hjálpi að hafa sterka ástríðu. Ekki bara fyrir því að gera góða hluti heldur fyrir svæðinu. Þegar ég segi svæðið á ég við mínar heimaslóðir sem eru í þéttbýlinu, út um allar sveitir, upp á heiðar, í réttum á haustin, veiði í vötnum, berjamó í lautum, íþróttakeppnir upp um allar sveitir, vaða út á gömlu bryggju, setja pening í tíkallakassann á hótelinu, stelast í lakkrís úr apótekinu, snýkja kringlu í Krútt, spjalla við Buddu Páls, bera út póst, hlaupa með skeyti út um allan bæ, vorspretturinn með blóðbragð í munninum, bíósalurinn á sunnudögum, bókabúðin hjá ömmu, ný stígvél í Kaupfélaginu o.s.frv. o.s.frv. Mér er sagt að ég sé fyrsti heimamaðurinn sem er sveitarstjóri síðan 1978 þegar Einar Þorláksson var sveitarstjóri. Þetta er reyndar ekki alveg sambærilegt vegna þess að nú erum við nýtt sameinað sveitarfélag, en rétt Blönduós megin. Það voru því ákveðin örlög að við hjónin skildum kaupa hús þeirra Einars og Arndísar hvar við búum nú. Og hvort að þetta allt saman sé góð uppskrift á eftir að koma í ljós en ég er að njóta þessa að takast á við þetta. Þetta er að einhverju leiti eins en einnig öðruvísi en ég átti von á og það er áskorun. En áskorun er ein af ástæðum þess að ég lét slag standa og kom hingað. Það er ekkert gaman að vera alltaf pikkfastur í þægindarammanum sínum.
Ég hlakka því til að takast á við þetta og við hjónin erum spennt fyrir því að vera komin hingað og taka þátt í þessu samfélagi og uppbyggingu þess. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta verður ekkert bara dans á rósum og ég hef nú þegar gert mistök og á eftir að gera mun fleiri en það að vonlaust að búa til eitthvað nýtt án þess að gera mistök. Lykilatriðið er að læra af reynslunni og halda áfram. Það sama á við um breytingar, það er aldrei hægt að tryggja fyrirfram að breytingar séu nákvæmlega réttar eða framkvæmdar á réttan hátt. En kyrrstaða er ekki í boði, allavega ekki á minni vakt og ég mun gera allt til að hvetja ykkur öll til þess að gera tilraunir, breyta og gera eitthvað nýtt. Hvað er það versta sem getur gerst? Það er þá allavega alltaf hægt að fara til baka og gera hlutina eins og vanalega.
Ég er keppnismaður að eðlisfari og ég vil ná árangri. Núna snýst sá árangur um að ná árangri fyrir ykkur íbúa Húnabyggðar. Ég sé engan mun á dreifbýli og þéttbýli, stjórmálaskoðunum eða hvernig þið lítið út, ég er að vinna fyrir ykkur öll og við þurfum að ná árangri saman annars er þetta ekki alvöru árangur. Það er í sjálfum sér ekkert sérstakt að skora mark og fagna því ef liðið manns tapar leiknum. Við þurfum að breyta, breyta mörgu t.d. því að vera undir landsmeðaltali í öllum mögulegum og ómögulegum hlutum. Komum í smá keppni, hættum þessu miðjumoði og förum að spila sóknarbolta.
Það er alveg sama hvernig við lítum á þetta við höfum allt til alls hér í Húnabyggð. Hér hafa verið gerðir frábærir hlutir í gegnum tíðina og sóknarfæri svæðisins liggur í þeirri stöðu sem við erum í núna, þökk sé þeim sem komu okkur hingað. En tækifærin til að gera enn betur eru endalaus. Við þurfum að einhenda okkur í þessa vinnu, nota hugvitið okkar og virkja bæði einstaklingsframtakið og samstöðu allra í sveitarfélaginu og átta okkur á því að hagsmunir okkar allra eru samofnir. Þið munið mörg eftir gamla slagorðinu „Virkjum Blöndu“, það sem við þurfum núna er „Virkjum Húnabyggð“. Við þurfum að virkja það hugvit sem við erum með nú þegar og þó við næðum ekki nema litlu broti af því væri það miklu meira en nóg til að flytja okkur áfram á nýja og spennandi staði.
Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og hafið það sem allra bezt yfir áramótin og við sjáumst hress á nýju ári.
Með góðum kveðjum,
Pétur Arason
Sveitarstjóri Húnabyggðar