Við þekkjum það vel Íslendingar að sigra heiminn, það höfum við reglulega gert allt frá því að landnámsmenn fóru með dróttkvæði fyrir konunga Evrópu eða með erindi sín alla leið til Rómar. Á seinni tímum hefur þetta að mestu snúist um að vera betri en allir aðrir miðað við höfðatölu. Við Húnvetningar höfum ekki farið varhluta af þessum endalausu sigrum í gegnum tíðina, en nú er hún Snorrabúð stekkur.

Okkur verður ekkert að vopni þessa dagana og illa gengur að draga alsgnægtir 21. aldarinnar heim í hérað. Við keyrum eftir holóttum vegum upp um allar sveitir, ný fyrirtæki fá ekki heitt vatn, lausaganga fjár er heimil vegna þess að hér er ekki girt meðfram þjóðvegi 1, vöruverð er hér mun hærra en gengur og gerist, orkuverð í dreifbýli er mun hærra en annars staðar við hlið einnar stærstu virkjunar í landinu og enn er flugvöllurinn ómalbikaður.

Fyrir meira en 30 árum töldum við okkur hafa sigrað heiminn þegar ákveðið var að virkja Blöndu og hér var reist fyrsta virkjunin sem hönnuð og smíðuð var af Íslendingum. Fögur loforð um ”orkuna heim í hérað” er kunnuglegt stef sem í dag er ekkert annað holur ómur fortíðarinnar. Hér hefur aldrei verið farið í neina orkufreka atvinnuuppbyggingu. Sumir segja auðvitað ”þið megið þakka fyrir að það var ekki gert” og það er mögulega sjónarmið sem hægt er að taka undir. En eftir stendur að nærsvæði virkjunarinnar hefur hagnast mjög takmarkað á þessum framkvæmdum og nánast ekkert ef miðað er við þau verðmæti sem virkjunin hefur skapað fyrir alla Íslendinga. Vissulega var mikil vinna á svæðinu þegar virkjunin var byggð og allar götur síðan hafa starfsmenn verið hér á svæðinu að vinna í virkjuninni og auðvitað er versluð þjónusta við fyrirtæki á svæðinu. Óumdeilt, en þetta eru ekki einu sinni brauðmolar í stóra samhenginu. Ég hef heyrt sögur af því að við ætluðum að sigra heiminn í samningaviðræðum við yfirvöld á sínum tíma og eitt tilboðið sem ég heyrði um var að íbúum var boðin ókeypis orka um aldur og ævi, það var vissulega áhugavert tilboð. Því var reyndar ekki tekið, en í stað þess kom til útdeilding fjárhæða bæði til landeigenda og samfélagsins. Fólk var auðvitað að sækja fram fyrir sitt samfélag og mögulega voru þetta góðir samningar akkúrat á þeim tímapunkti sem þeir voru gerðir. Það er auðvelt að vera vitur eftir á, en þegar tíminn líður sést auðvitað að um var að ræða gríðarlega hagsmuni, hagsmuni sem erfitt var að sjá fyrir um hversu mikinn hagvöxt myndu skapa um ókomna framtíð. Þannig að fjárhæð eins og t.d. 100.000.000kr. var gríðarleg upphæð fyrir 30 árum, en er klink í uppbyggingu samfélaga í dag og ekkert ef þessu er dreift á 30 ár.

Það er erfitt að tala um fyrirtæki eins og Landsvirkjun á neikvæðan hátt. Ég held að flestir Íslendingar séu jákvæðir í garð Landsvirkjunar, enda sýna nýjar mælingar á mjög skýran hátt að Landsvirkjun er góður nágranni. Ég get allavega talað fyrir sjálfan mig að ég er mikill aðdáandi Landsvirkjunar, ég er lærður rafvirki og fyrsta vinnan mín í námi sem rafvirki var hjá Landsvirkjun. Það voru ógleymanlegir tímar og fyrir þau ykkar sem ekki hafið prófað mötuneyti Landsvirkjunar þá eigið þið mikið eftir. Landsvirkjun varð síðan til þess að ég flutti til Danmerkur og varð verkfræðingur, þannig fyrirtækið á sér sterkan sess í huga mínum. Ég hef einnig unnið töluvert fyrir Landsvirkjun sem ráðgjafi og þekki mikið af fólki þar sem allt er frábært. Þannig að gagnrýni sem komið hefur fram frá orkusveitarfélögum í garð Landsvirkjunar kemur alls ekki úr þeirri átt að starfsmenn fyrirtækisins séu leynt og ljóst að vinna á móti hagsmunum þeirra sveitarfélaga þar sem orka er framleidd. Ég er reyndar nýbúinn að komast að því að sveitarfélagið okkar hefur um langt árabil staðið í málarekstri við Landsvirkjun vegna skilgreiningar á skattstofnsgrunni fasteignagjalda. En allavega, hér er fyrst og fremst verið að gagnrýna þær leikreglur og lög sem gilda í orkumálum og hversu lítil raunáhrif orkuframleiðsla og -dreifing hefur á þau nærsamfélög þar sem orkan er framleidd. Við deilum ekki um þau áhrif sem orkuframleiðslan hefur á þau nærsamfélög þar sem orkan er notuð, þau áhrif eru gríðarleg og við þekkjum sem hagvöxt landsins okkar síðustu áratugi. Orkuframleiðsla er grundvöllur allrar atvinnustarfsemi nema hugverkaiðnaðs, sem getur þó stundum verið tengdur orkuframleiðslu beint eða óbeint.

Á einhvern sérstakan hátt hefur ríkt um það þeygjandi samkomulag í þjóðfélaginu að virkja orkuna á ákveðnum svæðum, flytja hana á önnur svæði og skapa þar verðmæti án þess að svæðin þar sem orkan er upprunin fá í sinn hlut sanngjarna hlutdeild af verðmætunum. Ef takmarkið er að þjappa öllum landsmönnum á fá svæði þá er þetta kannski sniðugt, við gætum öll búið í sömu blokkinni ef út í það er farið. En það er bara ekki það sem við höfum ákveðið, við viljum halda byggðum landsins blómlegum o.s.frv. Ég er ekki viss um að þegar orkulögin voru sett á sínum tíma hafi markmiðið verið að tryggja það að mjög fá svæði myndu styrkjast en flest hinna ekki. Þar hefur örugglega verið ofarlega í huga að tryggja arðsemi nýstofnaðra orkufyrirtækja og að þau gætu starfað og tryggt orkuöryggi í landinu. Það er ekki síst þar sem við þekkjum Landsvirkjun þ.e. að tryggja orkuöryggi. Frá fyrsta degi má segja að orkuöflun hafi gengið vel, en lengi vel gekk þetta svona og svona með arðsemina. Að mínu mati var það ekki síst vegna afskipta stjórnmálanna. En með komu núverandi forstjóra Landsvirkjunar urðu ákveðin straumhvörf í stefnu fyrirtækisins og það fór í ríkara mæli að hugsa eins og markaðsþenkjandi fyrirtæki með fókus á viðskiptaþróun og nýsköpun. Ég var viðstaddur nýyfirstaðinn ársfund Landsvirkunar og það er auðvelt að sjá hvernig leiknum hefur verið snúið við með því að breyta um taktík t.d. í samningum fyrirtækisins við stóriðjuna og stórnotendur. Í dag eru verð til stórnotenda mjög nálægt því verði sem almenningur borgar. Um þetta hefur alltaf verið mikið ósætti hjá almenningi og mörgum finnst að alþjóðleg stórfyrirtæki í mengnandi iðnaði eigi að borga meira fyrir græna orku en almenningur. Hvað um það, nú er svo komið að skuldarstaða fyrirtækisins er mjög heilbrigð, eigið fé mikið og nánast allar ef ekki allar lykiltölur eru grænar. Það er að sjálfsögðu einföldun að segja þetta vera eins manns verk, þetta er að sjálfssögðu þrotlaus vinna allra starfsmanna síðustu 13 ára, en breytt sýn á stefnu fyrirtækisins var vendipunkturinn að mínu mati.

Þannig að í dag eigum við landsmenn fyrirtæki sem skilar um 50 milljörðum til eiganda síns, okkar. Af þessum 50 milljörðum eru um 20 milljarðar sem borgaðir eru í ríkissjóð sem arðgreiðsla. Landsvirkjun leggur áherslu á að það sé orkufyrirtæki sem býr til orku úr endurnýjanlegum orkugjafa á grænan og sjálfbæran hátt. Í fljótu bragði er auðvelt að vera sammála þessu, en ef við stöldrum við er þetta á sjálfbæran hátt? Það fer mögulega eftir því hvernig það hugtak er skilgreint. Eins og orkulögin eru núna fá orkufyrirtæki afslátt af fasteignagjöldum og í tilfelli Landsvirkjunar borgar fyrirtækið fasteignaskatta af um 5% af þeim mannvirkjum sem fyrirtækið á. Þetta eru vissulega lögin en það má sannarlega hafa skoðun á því hvort að þetta standist skoðun þ.e. að ríkið niðurgreiði orkuframleiðslu á þennan hátt. Landsvirkjun greiðir um einn milljarð í fasteignagjöld á hverju ára til þeirra sveitarfélaga þar sem orkan er framleidd. Einföld stærðfræði mundi segja manni að þyrfti fyrirtækið að borga af öllum mannvirkjum væri sú upphæð um 20 milljarðar. Forstjóri Landsvirkjunar hefur bent á réttilega að fasteignagjöldin eru skilgreind á ávkeðin hátt og það sé þannig, það virðist þó ekki vera óumdeilt sbr. fyrrnefndur málarekstur okkar sveitarfélags. Það er hins vegar ólíku saman að jafna að segja að skurðir bænda sé ekki andlag í fasteignagjöldum og því sé ekki ástæða til að gera síkt við skurði Landsvirkjunar. Ég treysti því að þetta hafi verið sagt í ákveðnu gríni eða hálfkæringi. En er orkuframleiðsla Landsvirkjunar sjálfbær? Já, því samkvæmt nýjustu tölum þá gæti fyrirtækið greitt þau gjöld sem annarri atvinnustarfsemi ber að greiða. Þessir 20 milljarðar sem greiddir eru út í arð nær akkúrat að greiða þessi 95% af fasteignagjöldum sem eru í dag ógreidd vegna þeirra reglna sem í gildi eru. Þannig að ég ætla að taka undir með Landsvirkjun að þau eru sannarlega sjálfbær þó það sé mögulega nýskeð miðað við þessa talnaleikfimi og það sjónarhorn sem við orkusveitarfélög erum að taka. Svo er hitt að þú getur ekki haldi því fram að vera sjálfbær ef umhverfið þitt er ekki á sama máli, sjálfbærni snýst um að fullkomið jafnvægi ríki.

En hvað er málið, á að greiða nokkrum sveitarfélögum alla þessa peninga og til hvers? Orkusveitarfélög hafa reynt eftir bestu getu að nálgast þessa rökræðu skynsamlega og með einföldum rökum. Gróft sagt má segja að öll atvinnustarfsemi skili um 5% af veltu sinni til þess sveitarfélags eða sveitarfélaga þar sem starfsemin er. Þetta er óháð hvaða atvinnustarfsemi um ræðir. Hvort að talan sé nákvæmlega 5% eða lægri eða hærri er ekki aðalatriðið en þetta eru greiðslur sem koma til sveitarfélaganna aðallega í formi útsvars og fasteignagjalda. Vegna þeirra afslátta sem orkufyrirtæki hafa hvað varðar fasteignagjöld og vegna þess hversu fáir vinna við frumframleiðsluna í orkugeiranum (flest störf á höfuðborgarsvæðinu) er þetta hlutfall mun lægra í orkuframleiðslu en í öðrum atvinnugreinum. Hér er því verið að biðja um að þessi staða verði leiðrétt og til hvers? Til þess að hægt sé að byggja upp þau samfélög þar sem þessi framleiðsla fer fram. Í því sveitarfélagi sem við búum í eru því miður mjög takmarkaðir fjármunir til að byggja um lykilinnviði eins og leikskóla, fráveitu, íþróttamannvirki og vatnsveitu til að nefna örfá dæmi um aðkallandi mál í okkar samfélagi. Við erum ekki sjálfbær og við erum meira að segja langt frá því að vera sjálfbær en hér væri komin sanngjörn leið til að auka sjálfbærni okkar og þeirra sveitarfélaga sem framleiða og flytja orku. Það er ekki markmiðið að þau ein sveitarfélög þar sem virkjunarmannvirki eru njóti góðs af heldur þarf allt nærsamfélagið að njóta góðs af. Í tilfelli vantsaflsvirkjana er það allt vantasviðið, í tilfelli vindmylla allt sjónsviðið og í tilfelli flutningsmannvirkja öll sveitarfélög þar sem línumannvirki eru. Hér væri því komin leið til að auka á sjálfbærni margra sveitarfélaga sem eru flest vanfjármögnuð. Hvernig þetta er útfært og hvort að allir afslættir af faseignagjöldum ættu að falla niður er eitthvað sem þarf að ræða. Það þarf einnig að skoða gjaldtöku af því afli sem er framleitt og flutt. Slíkar útfærslur eru þekktar í löndum sem við berum okkur saman við og þetta þekkist t.d. í Noregi þar sem er nærsamfélögum eru tryggðar tekjur af hverri kWh. Þetta er ekkert annað en markaðsþenkjandi rekstrarsýn út frá sjónarhóli þeirra sem búa á því landsvæðið þar sem orkan á upprunann sinn. Þannig að sú vegferð sem Landsvirkjun fór á fyrir um 13 árum með tilkomu núverandi forstjóra að breyta rótgrónu ríkisfyrirtæki í markaðsþenkjandi nýsköpunarfyrirtæki er nákvæmlega sama vegferð og sveitarfélög þurfa að fara á. Núverandi kerfi miðstýringar og pólitískrar íhlutunar er úr sér gengið og við þurfum að fara að hugsa öðruvísi til þess að búa til alvöru hagvöxt fyrir okkar nærsamfélag og þar með alla landsmenn. Með því munum við leysa úr læðingi aukna krafta, meiri nýsköpun og margnefnd orkuskipti verða mun auðveldari.

Ég held að það gleymist oft í þessari umræðu að það kostar gríðarlega fjármuni að vera vanfjármagnaður. Það kostar okkur sem þjóð gríðarlega mikla fjármuni að flest sveitarfélög eru ósjálfbær. Ég hef ekki töluna, liggur við að ég vilji ekki vita hana, en það þarf ekki fimm háskólagráður til að sjá hversu óskilvirkt kerfið er og hversu illa er farið með fjármuni. Hér væri hægt að skapa jákvæðar breytingar. En talandi um að fara illa með fjármuni, nýjustu fréttir eru þær að búið sé að ákveða að setja einn milljarð í einkafyrirtæki til að kaupa rafbíla og leigja þá síðan til ferðamanna og annarra. Hvaða markaðshagfræði er það? Hvenær var það í lagi að taka einn milljarð úr ríkissjóði og leggja hann inn í einkafyrirtæki? Þetta er ofar mínum skilningi. Í ofanálag er röksemdarfærslan að þetta sé gert til að auðvelda orkuskiptin! Hvernig væri að tryggja orkuframleiðslu og ekki síst orkuflutning í landinu sem er hálfkarað lamb allsstaðar annarsstaðar en á Suðurlandi? Með þessu framtaki er verið að byrja á öfugum enda, pissa í skóinn sinn eða hvaða hugtak þið viljið nota yfir vanhugsuð verkefni. Einn milljarður er ótrúlegt en satt sama upphæð og Landsvirkjun greiðir í fasteignagjöld fyrir öll virkjunarmannvirkin í landinu (ja, eða 5% af þeim)! Það er gömul saga og ný að raunveruleikinn er oftast lygilegri en skáldskapurinn.

Þegar ég er að skrifa þetta hér á sófanum með kveikt á sjónvarpinu, dotta ég enda textinn orðinn langur. Þegar ég er í einum svefnmókinum dreymir mig að ég sitji að spilum við borð með Herði Arnarssyni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Bjarna Benediktssyni. Við erum að spila póker og ég sé ekki betur en að ég sé með spaðaröð eða straight flush eins og það heitir. Ég set upp spekingslegan svip og tek í nefið. Set síðan með glöðu geði allt að veði. Þegar ég er að ýta peningunum og ærunni inn á mitt spilaborðið, er mér litið út um gluggann. Þar sé ég ekki betur en að krummi sitji á staur og gargi mikið, ég greini ekki alveg hvað hann er að segja en finnst það vera ”þótt þú tapir Pétur, það gerir ekkert til, því það er nefnilega vitlaust gefið”.

Sjáum hvað setur krummi minn ég er bjartsýnn og eigum við ekki að láta reyna enn einu sinn á að sigra heiminn?

 

p.s. þessi orkumál hafa tekið mikinn fókus undanfarið en ég segi ykkur meira af því hvað er að gerast bak við tjöldin á skrifstofunni í næsta pistil...

 

Með kveðju

Pétur Arason

sveitarstjóri Húnabyggðar

 

Getum við bætt efni þessarar síðu?